Polar Pelagic-hátíð Hróksins: Kæti í Kulusuk

Liðsmenn Hróksins hafa síðustu vikuna staðið fyrir árlegri Polar Pelagic-hátíð í Kulusuk á Grænlandi, sem er næsti nágrannabær Íslendinga. Hápunktur hátíðarinnar var meistaramót grunnskólans þar sem allir nemendurnir, rúmlega þrjátíu talsins, voru meðal keppenda.

Hátíðin hófst með kennslu og fjöltefli Hrafns Jökulssonar, en öll börnin í Kulusuk kunna mannganginn og mörg eru orðin harla góð í skáklistinni eftir fjölmargar heimsóknir Hróksins á liðnum árum. Reyndar þurfti að gera hlé á fjöltefli Hrafns, þegar fréttist að einn af veiðimönnunum í Kulusuk hefði fellt ísbjörn í jaðri þorpsins.
En það var ekki bara skáklistin sem var á efnisskrá hátíðarinnar. Heiðbjört Ingvarsdóttir sá um föndur- og hannyrðanámskeið og hin 9 ára gamla Jóhanna Engilráð Hrafnsdóttir hélt utan um myndlistarkeppni barnanna í skólanum.

Meistaramótið í Kulusuk var haldið á þriðjudag, og þar sigraði Mikkel Nathanielsen eftir æsispennandi baráttu. Í næstu sætum komu Grethe Nakinge, Julius Abelsen og Kenno Kalia. Öll fengu börnin glaðning frá Nóa Síríus, auk þess sem Hróksmenn færðu öllum börnunum ný skáksett að gjöf frá Air Iceland Connect.
Verðlaun í myndlistarsamakeppninni hlutu Hansiman Abelsen, William Nathanielsen, Pipaluk Utitsatikitseg, Grethe Nakinge, Helle Petersen, Enos Utuaq og Jacob Abelsen. Allar myndir krakkanna í Kulusuk verða til sýnis í Pakkhúsi Hróksins við Reykjavíkurhöfn helgina 16.-17. mars en þá standa Hrókurinn og Kalak fyrir Grænlandshátíð, til heiðurs Steffen Lynge, skákmeistara, tónlistarmanni og lögregluþjóni frá Grænlandi. Steffen hefur tekið þátt í starfi Hróksins á Grænlandi frá upphafi, árið 2003, og er heiðursfélagi í Hróknum.

Polar Pelagic-hátíðin er nú haldin í fimmta skipti, og eru liðsmenn Hróksins afar þakklátir fyrir frábæran stuðning. Aðrir bakhjarlar voru Air Iceland Connect, Íslenskir fjallaleiðsögumenn, Nói Síríus, prjónahópurinn í Gerðubergi og fleiri íslenskar hannyrðakonur, sem lögðu til mikið af vönduðum og góðum prjóna- og ullarfatnaði í gjafir og vinninga fyrir börnin í Kulusuk.

Facebook athugasemdir