Polar Pelagic hátíð á Austur-Grænlandi

Hrókurinn stendur þessa dagana fyrir Polar Pelagic-hátíð á Austur-Grænlandi. Hátíðin hófst í Kulusuk, næsta nágrannabæ Íslendinga, með skákkennslu og fjöltefli Hrafns Jökulssonar og listsmiðju Ingu Maríu Brynjarsdóttur. Um helgina berst leikurinn til Tasiilaq, þar sem á sunnudag verður haldið opið skákmót til minningar um Gerdu Vilholm, en hún rak lengi litla bókabúð og kaffihús, sem var sannkallaður griðastaður krakkanna í bænum.

Kulusuk skartaði sínu fegursta þegar leiðangursmenn lentu á miðvikudag. Mjög stormasamt hefur verið á Austur-Grænlandi í febrúar, en veður er nú milt, stillt og kyrrt og sól skín í heiði. Fyrir fáeinum dögum gengu þrír ungir íbúar í flasið á stórum ísbirni sem var að snudda í þorpinu eftir að skyggja tók. Hróksliðar hafa ekki séð til ísbjarna, en hitt þeim mun fleiri gamla vini, enda ekkert þorp á Grænlandi sem Hrókurinn hefur heimsótt oftar. Polar Pelagic-skákhátíðin markar jafnframt upphaf að 15 ára starfsafmæli Hróksins á Grænlandi, sem árið 2003 stóð fyrir fyrsta alþjóðlega skákmótinu í sögu Grænlands.

Þetta er fjórða árið í röð sem Polar Pelagic og Hrókurinn slá upp hátíð á Austur-Grænlandi í samvinnu við Air Iceland Connect, sem stutt hefur starf Hróksins á Grænlandi frá upphafi. Aðrir bakhjarlar eru m.a. Íslenskir fjallaleiðsögumenn, Ísspor, BROS, Nói Síríus og Bónus.

,,Við erum afar þakklát öllum sem gera okkur kleift að rækta vináttu Íslands og Grænlands,“ sagði Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins. ,,Það var undursamlegt að koma hingað til Kulusuk þar sem sólin ríkir, ytra sem innra. Við hlökkum til að hitta fleiri vini í Tasiilaq og heiðra minningu Gerdu, sem var einn helsti máttarstólpi barna í bænum og öflugasti liðsmaður skákgyðjunnar á þessum slóðum.“

Heiðursgestur á mótinu á sunnudag er Anna Kuitse Kuko, formaður Rauða krossins í Tasiilaq. Deildin var stofnuð fyrir réttu ári, og á von á veglegum glaðningi við setningu mótsins.

Facebook athugasemdir