Ólympíuskákmótið: Íslendingar fara vel af stað, stórveldin mætast á morgun!

carlsen04Eftir tvær umferðir á Ólympíumótinu í skák hafa átta þjóðir unnið báðar viðureignir 4-0 og tróna því saman á toppnum: Frakkland, Holland, Þýskaland, Kúba, Ítalía, Georgía, Serbía og Víetnam.

Ofursveit Rússa hefur líka unnið báðar viðureignir sínar, en glutrað niður hálfum vinningi. Í dag hikstaði Nepomniachtchi á 4. borði gegn Katar, þegar hann gerði jafntefli við Hamad Al-Tamimi, sem aðeins hefur 2186 stig.

Ellefu umferðir eru tefldar á Ólympíuskákmótinu í Tromsö. Hvert lið er skipað fjórum skákmönnum og einum varamanni. Armenar eru ríkjandi meistarar. Ólympíuskákmótið er af mótshöldurum sagt ,,fjórði stærsti íþróttaviðuburður ársins í heiminum“ en víst er um að þúsundir skákmanna eru nú langt fyrir norðan heimskautsbaug á fjölmennasta skákþingi sögunnar.

Þarna eru flestir bestu skákmenn heims: Carlsen, Aronian, Caruana, Nakamura, Kramnik, Topalov — en líka óþekktir snillingar úr fjarlægum deildum jarðar. Þarna eru skáksveitir frá Guam og Tógó og Andorra. Meira að segja frá Sýrlandi.

Norðmenn mega sem gestgjafar tefla fram þremur sveitum, en alls tefla rúmlega 170 sveitir í opnum flokki. B-sveit Norðmanna stal senunni í dag, með því að gera jafntefli við firnasterka sveit Úkraínu. Alþjóðameistarinn Urkedal skellti sjálfum Ivanchuk á 1. borði. Slæm bylta fyrir Úkraínumenn sem gera sér miklar vonir um að vinna titilinn.

Allra augu beindust í upphafi 2. umferðar að A-sveit Norðmanna, enda var nú Magnus Carlsen mættur til leiks. Aðrir í sterkri sveit Noregs eru stórmeistararnir Jon Ludvig Hammer, Simen Agdestein og Kjetil Lie. Gegn þessari sterku sveit höfðu Finnar aðeins einn stórmeistara, Tomi Nyback, og auk þess tvo alþjóðameistara og einn FIDE-meistara.

Finnarnir sýndu finnska seiglu, og jafntefli varð niðurstaða á öllum borðum. Fyrsta skák Carlsens á Ólympíuskákmótinu var frekar andlaus, og finnski stórmeistarinn var hvergi smeykur við norska jöfurinn.

10565157_10152615945903291_1552505638850459113_nÍsland? Jú, við sigruðum Íra, 3-1, sem eru prýðileg úrslit. Hannes Hlífar gerði jafntefli við sterkan stórmeistara á 1. borði, Guðmundur Kjartansson gerði sömuleiðis jafntefli á 2. borði, en gömlu brýnin (snillingarnir, vildi ég sagt hafa), þeir Þröstur Þórhallsson og Helgi Ólafsson unnu góða sigra á 3. og 4. borði.

Íslenska liðið hefur farið vel af stað undir stjórn nýja landsliðseinvaldsins, Jóns L. Árnasonar. Á morgun, mánudag, mætum við sterku liði Serba sem eru stigahærri á öllum borðum.

Og á morgun byrja stórleikirnir: Armenía-Frakkland, Bandaríkin-Holland, Þýskaland-England, Ungverjaland-Kína. Rússar munu væntanlega smjatta á Makedóníumönnum, og spennandi verður að fylgjast með viðureign Ítala og Indverja. Hinir síðarnefndu eru án Vishy Anands, sem er einn af örfáum ofurmeisturum sem ekki er á vappi um Tromsö þessa dagana.

Alls 86 landsleikir. Við munum líka fylgjast með viðureign Palestínumanna og Guernsey-inga!

Facebook athugasemdir