Ólympíuskákmótið: Carlsen lék á krónprinsinn

 Big Shakh

Shakhriyar Hamidoglu Mammadyarov – „Big Shakh“

Kúba og Azerbæjan eru efst á Ólympíuskákmótinu í Tromsö eftir sex umferðir af ellefu. Azerar sigruðu í dag Georgíumenn og Kúbverjar gjörsigruðu Kazaka.

Kínverjar, Rússar, Norðmenn unnu í dag og eru skammt frá toppnum, ásamt fleiri landsliðum.

Íslendingar og Færeyingar gerðu jafntefli, þar sem okkar menn hefðu átt að gera betur.

En augu skákheimsins beindust í dag að 23 ára gömlum Norðmanni og 22 ára gömlum Ítala.

10288753_10152628495643291_7362884884639072881_n

Skák dagsins! Carlsen sneri Caruana niður. (Mynd: GB.)

Fabiano Caruana (2801 skákstig) hafði hvítt gegn Magnusi Carlsen, þegar Ítalía og Noregur mættust í 6. umferð Ólympíuskákmótsins í Tromsö. Ungu mennirnir voru að tefla 14. kappskák sína.  Carlsen hafði unnið fjórar skákir en Caruana þrjár, og sex lyktað með jafntefli.

1896950_10152628497333291_4869966394086991711_n

Jón L. Árnason landsliðseinvaldur færir Guðmundi Kjartanssyni kaffi. Það dugði þó ekki gegn Færeyingum í dag. (Mynd: GB.)

Caruana er númer þrjú á heimslistanum og flestir álíta að hann verði helsti keppinautur Carlsens á næstu árum. Og hann virtist sannarlega til alls líklegur eftir byrjunina á skák þeirra á 69° í dag. Caruana fékk mun rýmra tafl og bjóst til sóknar. Carlsen er hinsvegar í annarri vídd en allir aðrir þegar kemur að miðtaflinu. Án þess að Caruana yrðu á alvarleg mistök náði Carlsen að snúa taflinu við, og mola niður hvítu stöðuna.
Carlsen hefur nú áréttað með afgerandi hætti, hver er (lang)besti skákmaður heims um þessar mundir. Og svona til að strá salti í sárin sendi Carlsen með úrslitum dagsins keppinaut sinn niður fyrir sjálfan 2800 stiga múrinn. Aðeins sjö skákmeistarar hafa náð 2800 skákstigum: Carlsen, Kasparov, Aronian, Anand, Topalov, Kramnik og Caruana. (Hinn seinheppni Azeri Radjabov náði 2799,6)

 

Norska liðið sigraði 3-1. Það verður fróðlegt að fylgjast með liðinu í næstu umferðum, þegar það mætir ofurstórmeisturum á öllum borðum. Þá fyrst reynir á Jon Ludvig Hammer, Simen Agdestein og aðra liðsfélaga heimsmeistarans.

934776_10152628495048291_5765558124713460182_n

Hallgerður og Lenka við upphaf viðureignar dagsins gegn Ísrael. (Mynd: GB.)

Íslenska liðið gerði jafntefli við Færeyinga, 2-2. Hannes Hlífar Stefánsson sigraði Helga Dam Ziska (2507) á 1. borði en Guðmundur Kjartansson tapaði fyrir FIDE-meistaranum Olaf Berg (2320) á 3. borði.  Hjörvar Steinn Grétarsson og Helgi Ólafsson gerðu jafntefli við mun stigalægri andstæðinga. Sem sagt ekki alveg nógu góð úrslit, þótt Færeyingar eigi auðvitað allt gott skilið.

Í kvennaflokknum tapaði íslenska liðið illa fyrir Ísrael, sem var talsvert stigahærra. Elsa María Kristínardóttir gerði vel með því að gera jafntefli á 4. borði. Kínverska liðið virðist annars í sérflokki. Í dag var sterk sveit Ungverja á matseðli Hue Yifan og félaga, sem unnu 3-1.

kasimdzhanov01

Kasimdzhanov. Gleymdur sem ,,heimsmeistari“ en nógu góður til að skella Kramnik.

Rússar sluppu með skrekkinn gegn Úsbekistan, en í þeirri viðureign bar hæst skák Kasimdzhanovs (2700) og Kramniks (2760). Þessi 34 ára Úsbeki bar titil heimsmeistara FIDE 2004-5, meðan skákheimurinn var klofinn og tveir heimsmeistarar voru á vappi samtímis. Í dag sýndi Kasimdzhanov allar sínar bestu hliðar gegn lánlausum Kramnik. Rússneski meistarinn hefur ekki verið sjálfur sér líkur síðustu misserin og er kominn niður í 10. sæti heimslistans.

Tap Kramniks kom ekki að sök, Grischuk (2795)  og Nepomniachtci (2714) sigruðu í sínum skákum og afstýrðu hneyksli.

R_20140805_tromso_olympiad_ivanchuk_016

Ivanchuk hrökk í gang og malaði andstæðing sinn mélinu smærra.

Kínverjar halda áfram að fara á kostum. Í dag unnu þeir þéttingssterka sveit Eyptalands með 3,5 vinningi gegn 0,5. Á 1. borði gerðu Yue Wang og Íslandsvinurinn Bassem Amin jafntefli, en hinar skákirnar unnu ungu kínversku snillingarnir.

Aðdáendur Vassily Ivanchuk geta varpað öndinni léttar. Hann hafði aðeins fengið 1 vinning í 4 skákum, og ofursveit Úkraínu á góðri leið með að verða flopp mótsins. Í dag tók Ivanchuk sig saman í andlitinu, og sallaði niður svissneska stórmeistarann Pelletier (2578) um leið og Úkraínumenn hleyptu af öllum byssum samtímis.

Hér hefur einkum verið fjallað um hvað er að gerast í toppbaráttunni, en dag voru alls háðar 86 viðureignir í opnum flokki á 41. Ólympíuskákmótinu. Og það var ekki síður hart barist í neðri hlutanum, enda ekki hægt að mæla ástríðu skákmanna með eló-stigum.

Tævan vann til dæmis Tógó, San Marínó sigraði Guam, og Fiji-eyjar gjörsigruðu Senegal. Já, og svo mættust Palestína og Suður-Afríka!

Facebook athugasemdir