Nýr heiðursfélagi í Hróknum!

Ingólfur Benediktsson bóndi í Árnesi, sem er sextugur í dag. Einn ötulasti liðsmaður skákgyðjunnar á norðurslóðum.
Kvöldsagan: Nýr heiðursfélagi Hróksins

Í dag varð minn góði og trausti vinur Ingólfur Benediktsson bóndi í Árnesi í Trékyllisvík sextugur. Því var vel fagnað með stórveislu í Reykjavík, þar sem saman komu vinir og ættingjar, sveitungar, brottfluttir Strandamenn og aðrir velunnarar.

Við Hróksmenn höfum síðan um aldamótin 2000 haldið fjölmörg skákmót og hátíðir í Árneshreppi. Ingólfur í Árnesi og hans dásamlega fjölskylda hafa jafnan tekið þátt í þessum viðburðum af lífi og sál, og verið hjálparhellur, liðsmenn og glaðbeittir vinir.

Ég átti því láni að fagna að vera nágranni Ingólfs og fjölskyldu hans í Trékyllisvík í þrjú ár og get hér með vottfest að ég get ekki ímyndað mér betri, skemmtilegri og hjálpsamari nágranna. Enda Strandamenn engum líkir.

Það var með mikilli ánægju og gleði sem við í Hróknum útnefndum Ingólf bónda heiðursfélaga í tilefni afmælisins í dag. Að auki færðum við honum fallegan stein frá Grænlandi — svo nú verða þeir tveir, Grænlandssteinarnir í Árneshreppi.

Húrra fyrir Ingólfi, hann lengi lifi!

Facebook athugasemdir