Nýjasta stjarna Kínverja skellir Carlsen!

13 er happatala Kasparovs og Lu Shanglei var einmitt 13. stigahæsti keppandinn á heimsmeistaramóti 20 ára og yngri sem lauk um helgina. Veðbankar gáfu Lu lítinn gaum í upphafi móts, og flestra augu beindust að ungstirninu Wei Yi sem er aðeins 15 ára og var lengst af efstur á mótinu, en varð að gera sér silfrið að góðu. En Lu sýndi stórkostlega taflmennsku á mótinu, vann sjö skákir, gerði sex jafntefli og tapaði ekki einni einustu. Meðal fórnarlamba hans var stigahæsti keppandinn, Vladimir Fedoseev.

Þótt nafn Lu Shanglei hafi ekki verið á allra vörum til þessa er hann löngu búinn að sýna að hann er einn efnilegasti skákmaður heims. Hann varð stórmeistari 16 ára og eftir sigurinn á Indlandi nálgast hann óðfluga 2600 skákstig. Árangur hans á heimsmeistaramótinu jafngilti 2726 stigum — svo hann á mikið inni.

Fyrr á árinu vann Lu sér til frægðar að leggja sjálfan Magnus Carlsen, stigahæsta skákmann sögunnar, á heimsmeistaramótinu í hraðskák. Segja má að Lu beiti hertækni heimsmeistarans, velur óhefðbundna byrjun, og fljótlega er staðan orðin vægast sagt tvísýn. Carlsen hrókerar langt með svörtu en hvíta drottningin nær að brjótast inn í kastalann og hrekja konunginn á flótta. Svarta drottningin gengur í dauðann til að bjarga kóngsa, en það er skammgóður vermir…

Facebook athugasemdir