Ný skákdrottning gerir kröfu til krúnunnar: Kínverska undrastúlkan nálgast Judit Polgar óðfluga

Hue Yifan við gröf  FischersN1 Reykjavíkurskákmótið var haldið í Hörpu, 6. til 13. mars 2012. Mótið var mörgum stjörnum prýtt, og keppendamet var slegið enn einu sinni.

Mesta athygli vöktu tvö ungmenni: Ítalinn Fabiano Caruana og kínverska stúlkan Hou Yifan, heimsmeistari kvenna.

Caruana sigraði á mótinu, hlaut 7,5 vinning af 9 mögulegum. Á hæla hans komu sjö meistarar með 7 vinninga. Í þeim hópi voru Íslandsvinirnir Ivan Sokolov og David Navara, sömuleiðis Hou Yifan. Henrik Danielsen náði líka 7 vinningum, og varð þar með efstur Íslendinga.

Hou Yifan vann hug og hjörtu allra sem hún hitti í heimsókn sinni. Hún lagði blóm á leiði Fischers, lék fyrsta leikinn fyrir keppendur á Íslandsmóti skákfélaga, var aðalstjarna á Stelpuskákdeginum, veitti viðtöl og ræddi við ráðamenn.

Hún er nú nýorðin tvítug, og hefur að undanförnu náð glæsilegum árangri.

[slideshow_deploy id=’1104′]

Á nýjasta FIDE-listanum er Hou Yofan komin með heil 2661 skákstig, sem skilar henni í 87. sæti heimslistans. Og þangað hefur aðeins ein kona náð áður: Goðsögnin Judit Polgar, sem er nú í 65. sæti með 2676 skákstig.

Hou Yifan er sannarlega verðugur heimsmeistari. Það verður spennandi að fylgjast með henni á Ólympíumótinu í Tromsö. Þar leiðir söguhetja okkar kínverska sveit, sem margir spá sigri. Eitt er víst: Hou Yifan mun  ætla sér sigur í öllum skákum!

Meira:

Umfjöllun um N1 Reykjavíkurmótið á Chess.com http://www.chess.com/news/fabiano-caruana-wins-2012-reykjavik-open-2912

Skák Hou Yifan og Fabiano Caruana á N1 Reykjavíkurmótinu 2012.

Sigurskák Hou Yifan gegn Judit Polgar 2012

 

 

Facebook athugasemdir