Norska ríkissjónvarpið leiddi Ólympíuliðið sitt í gildru – Versta frammistaða Carlsens í fjögur ár

Tómas Veigar Sigurðarson skrifar af Kaffihúsi Caissu:

 

Ýmislegt markvert gerðist á nýafstöðnu Ólympíumóti í Tromsö í Noregi. Í dæmaskyni mætti nefna:

–  Kínverjar unnu gullið í opnum flokki, fyrstir þjóða utan Evrópu og Bandaríkjanna.

–  Rússar unnu gullið í kvennaflokki þriðja árið í röð!

–  Judit Polgar, mesta skákkona sögunnar, lék sinn síðasta leik sem atvinnumaður.

–  Simen Agdestein, fremsti skákmaður Noregs um langt skeið og lærifaðir heimsmeistarans er líka hættur.

Og margt fleira.

Eitt vakti talsverða athygli: Frammistaða Magnúsar Carlsen, þrefalds heimsmeistara og stigahæsta skákmanns heims frá upphafi, var sú versta í fjögur ár. Reyndar var hún ekki það slæm að nánast hvaða skákmaður sem er hefði tryllst af fögnuði og splæst Pepsi á línuna þrátt fyrir norska verðlagið. Árangurinn var nefnilega upp á 2799 stig að teknu tilliti til núvirðingar vísitölu og gengismunar. Það dugar þó hvergi nærri þegar maður heitir Magnús Carlsen (2877), hann tapaði stigum á öllu saman og hafði sig heim fyrir lokaumferðina, hundleiður og án þess að splæsa svo miklu sem millilíter af Pepsíi…

Til allrar hamingju endar sagan ekki hér, því nú hefur komið í ljós að þetta var alls ekki honum að kenna, heldur mótshöldurunum og norska ríkissjónvarpinu skv. norskum fjölmiðlum.

Foto: Daniel Skog

Forsætisráðherrann lék fyrsta leikinn fyrir Magnús í 10. umferð

Það sem átti sér stað var súrefnisskortur og það með fullum vilja og meðvitund mótshaldaranna! Salurinn var nefnilega svolítið lítill og inni í honum voru svolítið margir – það var auðvitað löngu vitað. En blessaðir mótshaldararnir tímdu ekki að kaupa almennilega loftræstingu; kannski voru ekki til peningar enda kostaði mótið nánast heildarframlög norska ríkisins til súrefnis og sulturannsókna samanlagt.

Norðmenn vildu gjarnan fylgjast náið með liðinu sínu, eðlilega, sjá hvern einasta leik og hvert svipbrigði svona til öryggis svo þeir gætu betur áttað sig á hvort staðan var góð eða slæm og jafnvel rætt spekingslega sín á milli um allar góðu og slæmu stöðurnar á hverjum tíma. Til þess að svo mætti vera, brá norska ríkissjónvarpið á það ráð að hafa liðið alltaf við sama borðið, borðið þar sem allar myndavélarnar voru, hvað annað.  Það sem mótshaldararnir og ríkissjónvarpið hafði ekki áttað sig á var að blessað borðið var eins langt frá súrefnisinntökum inn í salinn og mögulegt var.

Aumingja Norðmennirnir engdust því um í svitakófi og súrefnisleysi allt mótið og vissu vart sitt rjúkandi ráð þegar bölvaðir andstæðingarnir, stútfullir af súrefni frá fyrri umferðum, lögðu fyrir þá hverja þrautina á fætur annarri sem þeir, hálf meðvitundarlausir mennirnir, skildu bara ekkert í. Því fór sem fór..

Eins og maðurinn sagði: ,,Ég fer aldrei aftur til Akureyrar.“

NRK greinir frá

Facebook athugasemdir