Myrtir í miðri skák

Kári Elíson skrifar

Kári Elíson skrifar

Skák hefur oft verið líkt við stríð þar sem harmleikir og dramatík gerast og dauðinn er á sveimi í ýmsum myndum. Kvikmyndir hafa verið gerðar um skák, söngleikir samdir og sögur skrifaðar þar sem allt hefur gerst, morðingjar og hvað eina. Allt er þetta raunar að einhverju leyti byggt á raunveruleika.

Bréfskák er eitt sem menn tengja kannski ekki almennt við dauða og dramatík en samt er það svo. Á síðustu öld voru bréfskákir mest tefldar bréfleiðis en ekki í gegnum tölvu eins og nú tíðkast. Skákir gátu því staðið yfir lengi eða í nokkur ár og margt gat gerst í lífi teflenda á þeim tíma. Lengsta bréfskák sem tefld hefur verið stóð yfir í 16 ár (1859-1875) á milli Bandaríkjamanns og þjóðverja.

Bosníu stríðið í gömlu Jugóslavíu var háð 1992-95 og það sem kallað hefur verið Kosovo-stríð þar í landi 1995-1999. Þessi stríð höfðu mikil áhrif í mörg ár eftir að þeim formlega lauk vegna allra þeirra þjóðernisdeilna sem voru orsökin. Ég var að tefla við einn bréfskákmann frá Kosovo í móti sem skipulagt var frá Júgoslavíu þegar ég fékk um aldamótin 2000 bréf þar sem mér var tilkynnt að andstæðingur minn hafi verið myrtur af sérstakri dauðasvet serba. Bréfið var ritað af ekkju hans. Við vorum þá búnir að leika 14 leiki í óljósri stöðu.

brefskak_kortÉg hef tekið eftir því á mínum rétt rúmlega 20 ára bréfskákferli að flestir erlendir bréfskákmenn virðast mjög vel menntaðir og hef ég t.d. teflt við marga, verkfræðinga, stærðfræðinga, lækna, flugstjóra, bankamenn og tölvufræðinga. Ég tefldi eitt sinn við austur evrópskan geðlækni sem sendi mér fyrsta leikinn á lyfseðli, það var ansi flott!.

Ég tefldi til að mynda við rússneskan verkfræðing og viðskiptajöfur. Hann var safnari og skiptumst við á frímerkjum og gömlum peningaseðlum og fleiru. Þetta var á árunum 2000-2004. Eitt sinn stoppaði Íslandspóstur eina sendingu til mín og krafði mig um 50.000kr toll! Þeir sögðu að frímerkin frá rússanum hefðu verið metin á heilmikinn pening og því væri þetta svona. Ég fór með málið til póshússtjóra og hótaði honum lögfræðingi og málið var látið niður falla. Frá þessum rússa fékk ég m.a peningaseðil frá Eistlandi með mynd af Paul Keres á. Þar kom að því að ég fékk ekki leik frá rússanum í nokkra mánuði. Síðan einn daginn fékk ég þó bréf. Það var þá ekki frá honum sjálfum heldur konunni hans sem tilkynnti mér dauða hans. Leynimorðingi frá rússnesku mafíunni hefði drepið hann.

STRÍÐSHETJAN

flugvjelÉg tefldi eitt sinn tvær vináttuskákir við bandaríkjamann sem hét Arthur Stobbe. Hann hafði áður teflt við Gunnar Frey Rúnarsson leifturskákmeistara í þemamóti í bréfskák seint á síðustu öld og þannig komst ég í kynni við hann. Arthur þessi bar konungsnafnið vel því þetta var harðjaxl á níræðis aldri, fæddur árið 1916 og lést 2008 92 ára að aldri.. Hann sagði mér það að hann hefði barist í seinni heimsstyrjöldinni sem orrustuflugmaður og tekið þátt í yfir 200 loftárásum á Þýskaland. Hann skrifaði að sér væri þó andskotans sama um öll stríðsheiðursmerki og það allt. Arthur sem var undir 2000 ELO stigum tefldi fersklegan og lítt fræðilegan stíl. Hann sagði mér líka að hann hefði aldrei stúderað neitt heldu mest teflt á flugvöllum á milli árasarferða á nasista og síðar léttar skákir í skákklúbbum. Hann  hefði farið að stunda bréfskák á efri árum til þess að drepa tímann í stað þess að drepa menn. Við vorum í óútkljáðu miðtafl þegar hann hætti að svara mér og nokkru síðar frétti ég að hann hefði farið á vit feðra sinna. Líklega áhyggjulaus yfir okkar skákum en með meiri áhyggjur af þjóðverjum sem hann myndi htta hinum megin..

DAUÐINN Í BRÉFSKÁK

Ambraham_khasim

Abraham Khasim

Í bréfskák eru þær reglur í liðakeppnum þjóða að skipta má um keppanda ef hann veikist eða deyr eða verður að hætta keppni af öðrum eðlilegum orsökum. Í sumum tilfellum eru óloknar skákir sendar í dóm ef um slíkt er að ræða en oftast er það í einstaklingskeppnum. Rússneski stórmeistarinn Abraham Khasin sem komst 5 sinnum í úrslit á rússneska meistaramótinu snéri sér meira síðar að skákþjálfun og bréfskák. Þegar hann var orðinn nokkuð við aldur 1999 sagðist hann hættur í bréfskák þrátt fyrir frábæran árangur.. Hann kærði sig ekkert um það ef hann myndi deyja í miðjum skákum að einhverjir aðrir myndu stúdera skákirnar hans eða tefla þær að honum fjarstöddum!

Árin 1993-96 fór fram  keppni norrænna þjóða við Eystrasaltslönd. Á 6 borði tefldi Þórir Sæmundsson fyrir Ísland. Þegar hann hafði teflt 16 leiki varð hann bráðkvaddur. Það fór svo að annar íslendingur tók við skákinni. Á meðan hann var að hugsa 17. leikinn dó hann líka án þess að 17. leikurinn væri leikinn.. Sorglegt og alveg einstakt en þannig var það. Ég var beðinn að taka við skákinni og með hálfum huga samþykkti ég það, enda raunar ekki hægt að neita slíkri bón.

Skákin var við Noreg og upp hafði komið Benony vörn. Þórir hafði verið með hvítt og teflt mjög vel og byggt upp góða stöðu. Ég fann ágætis sóknaráætlun og sendi leikinn 17.e5!? án þess að nokkuð kæmi fyrir mig. Normaðurinn Smeby var ekki ánægður með gang mála að þriðji íslendingurinn skyldi tefla þessa skák við hann en varð að sætta sig við það. Hófst nú mikil barátta þar sem ég tefldi til sigurs í minningu íslendinganna tveggja. Ég fórnaði manni tvísýnt með 30.hxg5!? og svartur var undir mikilli varnarpressu. Ég vann svo að lokum alveg þokkalega í skák sem birtist síðar í tímaritum og einni bók en ég einn skráður fyrir skákinni sem venja er. Ég á þó meira en helming í þessari óvenjulegu skák…

Nordbalt team 1993-96

Hvítt: Kári Elíson Ísland
Svart: Ole Smeby Noregur

Gefið. 1-0.
Eftir 43.Kg8 kemur 44.exd7 með máti í nokkrum leikjum og einnig verður svartur fljótlega mát eftir 43.Hxf7 44.gxf7+ Kf8 45.De7+ osfrv.

Facebook athugasemdir