Mótunum lokið í Bilbao

Viswanathan AnandStórmótinu í Bilbao og Evrópukeppni Taflfélaga lauk í gær. Bæði mótin fóru fram á sama tíma og mynduðu magnaða skákhátíð í Bilbao. Segja má að lokaumferðin hafi verið formsatriði þar sem Viswanathan Anand hafði þegar tryggt sér sigur á stórmótinu og sveit SOCAR frá Azerbaijan hafði meira og minna tryggt sér sigur á EM Taflfélaga.

Ef til vill var hugurinn farinn að reika og einbeitingin komin á Heimsmeistaraeinvígið því Anand náði ekki að sýna sitt besta í lokaumferðinni gegn Levon Aronian. Segja má að hann hafi algjörlega úr karakter leikið af sér stöðu sem telja mátti í jafnvægi. Aðeins voru þungir menn eftir hjá báðum aðilum og engin frípeð og því óvenjulegt að lenda í vandræðum en Anand bæði lék af sér klaufalega og missti síðar líklega einnig af jafnteflisleið.

Pons Vallejo náði að bjarga sínu móti með sigri á Ruslan Ponomariov í síðustu umferð en báðir áttu þeir erfitt uppdráttar í mótinu. Aronian er líklegast sáttur með mótið en hann átti erfitt uppdráttar í Sinquefield þar sem hann tapaði m.a. þremur skákum í röð. Hann var í raun jafn Anand að vinningum ef notast hefði verið við klassískt skor en í Bilbao voru gefin þrjú stig fyrir sigur og eitt fyrir jafntefli og þar hfaði Anand betur vegna fleiri sigurskáka.

Mamedyarov var á 1. borði hjá SOCAR

Mamedyarov var á 1. borði hjá SOCAR

Sveit SOCAR varð öruggur sigurvegari á EM Taflfélaga en sveitin vann sigur í öllum sjö viðureignum sínum. Fyrrum Evrópumeistarar G-Team Novy Bor frá Tékklandi höfnuðu í öðru sæti.  Sveit Hugins tapaði í síðustu umferð en mega vel við una og enda í 18. sæti sem er ofar en styrkleiki liðanna gaf til kynna fyrir mót en þar var liðinu raðað númer 21. Upp úr stóð stórmeistaraáfangi Einars Hjalta Jenssonar sem hefur verið gerð góð skil hér á síðunni.

Í kvennafliokki varð sveit frá Batumi efst og vann einnig allar sjö viðureignir sínar.

Bestan árangur einstaklinga skilaði Veselin Topalov og athyglisvert að hann virðist standa sig einstaklega vel í liðakeppnum en hann var með árangur sem samsvarar yfir 2900 elóstigum, eins og á Ólympíumótinu þar sem hann fékk verðlaun fyrir bestan árangur á 1. borði. Fabiano Caruana var sterkastur á 1. borði í þessu móti og tefldi upp á 2896  stig og hækkar enn á stigum. Við munum síðar taka fyrir stigahræringar hjá stigahæstu skákmönnum heims en miklar breytingar hafa orðið á toppnum sem virðist bara ætla að þéttast.

Facebook athugasemdir