Mönnum fórnað í akkorði

Armenski skákjöfurinn Rafael Vaganian náði að snúa á Jóhann Hjartarson í 5. umferð HM skáksveita 50 ára og eldri. Vaganian var sjálfum sér líkur í skákinni — fórnaði skiptamun og blés ótrauður til sóknar með biskupapar og herskáan kóng í fremstu víglínu. Þessi litríki skákmaður fæddist í Yerevan 15. októer 1951 og tilheyrir þannig frægasta skákárgangi sögunnar — þetta ár litu dagsins ljós garpar á borð við Karpov, Timman, Ribli og Sax.

Vaganian varð stórmeistari 19 ára, þegar hann sigraði á stórmóti í Júgóslavíu. Árið 1971 varð hann aðeins í 4. sæti á heimsmeistaramóti 20 ára og yngri; óvæntur sigurvegari var Svisslendingurinn Werner Hug. Svo mjög mislíkaði Vaganian niðurstaðan að hann skoraði samstundis á hinn nýja heimsmeistara í hraðskákareinvígi — og sigraði 10-0!

Vaganian er þekktur fyrir algert óttaleysi við skákborðið, leiftrandi stíl og næstum yfirnáttúrlega tilfinningu fyrir möguleikum stöðunnar. Hann hefur á glæstum ferli unnið ótal stórmót, varð m.a. skákmeistari Sovétríkjanna 1989, og komst í tvígang í áskorendaeinvígin um heimsmeistaratitilinn.

Skák dagsins tefldi Vaganian í Skopje 1976, eða fyrir réttum fjörutíu árum. Fórnarlambið var bandaríski stórmeistarinn Samuel Reshevsky (1911-1992) sem átta ára síðar vann Reykjavíkurskákmótið ásamt Jóhanni Hjartarsyni og Helga Ólafssyni. Skákin er dæmigerð fyrir hárbeittan sóknarstíl armenska snillingsins, sem fórnar mönnum í akkorði!

Facebook athugasemdir