Minningarorð Sigurlaugar um Birnu Norðdahl : Merk kona og mikil hetja

Birna var ein af glöðustu manneskjum sem ég hef kynnst um ævina. Hún hló dátt og innilega. Það geislaði af henni orka og áhugi.

Birna var ein af glöðustu manneskjum sem ég hef kynnst um ævina. Hún hló dátt og innilega. Það geislaði af henni orka og áhugi.

Birna Eggertsdóttir Norðdahl fæddist í Hólmi í Reykjavíkursókn í Kjósarsýslu, 30. mars 1919. Hún lést á Akranesi 8. febrúar 2004. Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir skrifaði falleg og fróðleg minningarorð, sem birtust í Mbl. 23. febrúar 2004.

Mín mæta vinkona Birna Norðdahl, merk kona og mikil hetja, kvaddi þennan heim 8. febrúar síðastliðinn.

Birna var alveg einstök manneskja. Hún var bæði bóndi og listamaður: bjó lengst af í Bakkakoti fyrir utan Reykjavík, hafði þar hesta sem hún heyjaði fyrir, málaði myndir, vann úr leðri, skar út í tré auk þess sem hún gerði alla hefðbundna handavinnu og alla smíðavinnu innanhúss sem og utanhúss. Síðast en ekki síst var hún skákkona og á því sviði frumkvöðull að því að íslenskar konur tefldu fyrir Íslands hönd á Ólympíumótum í skák.

Birna tók þátt í sínu fyrsta skákmóti árið 1940, þá 21 árs að aldri. Þá var hún eina konan sem tefldi á mótinu. Þegar kvennadeild Taflfélags Reykjavíkur var stofnuð 1975 kom Birna fram á sjónarsviðið aftur.

Sem ein fyrsta konan á Íslandi sem tefldi á opinberum skákmótum mátti Birna oft þola neikvætt viðhorf frá karlpeningnum. Hún minntist þess að karlmenn sýndu oft sterk viðbrögð ef þeir töpuðu fyrir henni og að einu sinni vorkenndi hún svo strák einum sem hún hafði mátað, því hann var alveg niðurbrotinn eftir skákina, mest þó vegna þess að félagar hans stríddu honum svo mikið fyrir það ,,að hafa tapað fyrir kerlingunni“ eins og Birna orðaði það.

Þegar ég kynntist Birnu á Skákþingi Íslands í apríl 1976 var hún þegar orðin margföld amma og bjó ein í Bakkakoti. Við tefldum af og til næstu árin og vorum svo í kvennasveitinni sem tefldi á Ólympíumótinu á Möltu 1980. Birna tefldi þar á sínu öðru og síðasta Ólympíumóti 61 árs og var hún þá orðin langamma. Birna sýndi þar sem fyrr að hún var mikil baráttukona, einnig á skákborðinu, því hún tefldi ætíð til síðasta peðs og henni var í rauninni illa við jafntefli. Henni fannst „spenningurinn, hvort maður lifir eða deyr“ það skemmtilegasta við skákina.

Á árunum 1980 til 1985, eða þangað til ég fluttist af landi brott til fjölda ára, vorum við Birna oft í sambandi, bæði heimsótti ég hana í Bakkakot og svo töluðumst við oft við í síma. Ég gat alltaf borið undir hana allar mínar vangaveltur um lífið og tilveruna og hún var ætíð góður hlustandi og sýndi mér skilning og hafði sjálf frá svo mörgu að segja.

Sem ein fyrsta konan á Íslandi sem tefldi á opinberum skákmótum mátti Birna oft þola neikvætt viðhorf frá karlpeningnum.Karlmenn sýndu oft sterk viðbrögð ef þeir töpuðu fyrir henni.

Sem ein fyrsta konan á Íslandi sem tefldi á opinberum skákmótum mátti Birna oft þola neikvætt viðhorf frá karlpeningnum.Karlmenn sýndu oft sterk viðbrögð ef þeir töpuðu fyrir henni.

Birna var afar skemmtilegur ferðafélagi og sumarið 1983 tókum við tvær upp á því að fara með ferju til Bremenhaven í Þýskalandi með einungis tveggja tíma stoppi í höfninni þar og svo tilbaka. Við höfðum taflið með og tefldum báðar leiðirnar uppi í veitingasalnum og vorum að sjálfsögðu aðalskemmtikraftarnir á skipinu fyrir bragðið.

Alla tíð sem ég man eftir átti Birna við heilsubresti að stríða en hún gerði nú sjálf oftast gys að sínum veikindum og sagði frá þeim eins og um gamansögur væri að ræða. Miðað við hennar sjúkdómssögu í gegnum öll herrans árin hefur hún án efa snúið á læknavísindin og storkað læknunum oftar en einu sinni. Það kom nefnilega fyrir að hún fór rakleiðis eftir uppskurð til útlanda á skákmót í trássi við læknana. En hún vildi jú tefla og fór því til útlanda á skákmót hvað sem öðru leið og svo eftir á sagði hún sigri hrósandi: ,,Auðvitað hafði ég rétt fyrir mér og ég vissi að ég myndi koma lifandi til baka!“

Birna var ein af glöðustu manneskjum sem ég hef kynnst um ævina. Hún hló dátt og innilega. Það geislaði af henni orka og áhugi. Hún var fordómalaus gagnvart fólki og sýndi dýrum og gróðri umhyggju og ég er sannfærð um að hún skildi dýr betur en flestir aðrir, einkum kindur og hesta, það sýna hin fjölmörgu málverk af þessum dýrum sem hún málaði. Birna sýndi mér ógleymanlegan vináttuvott þegar hún vorið 1982 gaf mér málverk af hryssu með folaldið sitt sem hún hafði málað og tileinkað mér.

Ég þakka forsjóninni að vegir okkar Birnu Norðdahl lágu saman í gegnum skákina, því annars hefðum við — með okkar 42 ára aldursmun — sennilega aldrei hist.

Innilegar samúðarkveðjur frá kvennalandsliði Íslands í skák til fjölskyldu Birnu Norðdahl. Við drúpum allar höfði yfir andláti Birnu og munum ætíð minnast hennar sem einnar fremstu og mestu skákkonu Íslands.

Facebook athugasemdir