Milljónamótið: Íslendingar í verðlaunasætum – Spennan í opnum flokki í ruglinu

Xiangzhi Bu er háll sem áll.

Xiangzhi Bu er háll sem áll.

Það er óhætt að segja að spennan fyrir lokaumferðina í Vegas sé í ruglinu. Enginn þeirra þriggja efstu fyrir 6. umferðina vann sína viðureign og því eru nú sex efstir með fimm vinninga og tíu með 4,5 vinninga sem gæti dugað í topp fjögur sætin.

Stigahæsti keppandinn, Wesley So (2755) gerði tíðindalítið jafntefli við Yangyi Yu (2697) í 6. umferð og þeir því báðir með 5 vinninga. Boltinn var því alfarið hjá Daniel Naroditsky (2601) sem var manni yfir í endatafli gegn kínverjanum Xiangzhi Bu (2710) og hefði getað tryggt sér efststa sætið með sigri.

Xiangzhi Bu gegn Daniel Naroditsky. 43.. h4

Xiangzhi Bu gegn Daniel Naroditsky. 43.. h4

Bu er hins vegar háll sem áll enda tókst honum að halda skákinni. Daniel er nýbúinn að leika 43..h4, leikur sem var mjög gagnrýndur af þáttarstjórnendum ytra, enda h-peð svarts lykilinn að stöðunni. Svartur hefur hvítreita biskup og h-peð, en uppkomureitur þess er h1, sem er hvítur reitur, því er afar óheppilegt að bjóða upp á uppskipti. Hvítur getur þó ekki leikið g3 alveg strax, enda er því svarað með Be4 og óverjandi mát er staðreynd.

Daniel

58.g4

Bu er hins vegar ekki alveg byrjandi í íþróttinni og tókst að mjaka stöðunni áfram þar til hann gat leikið g4 og þar með læst stöðunni. Daniel stóð ekki annað til boða en að taka með framhjáhlaupi og þar með voru vonir hans um sigur að engu orðnar. Jafntefli varð niðurstaðan og Daniel með 5 vinninga.

Staðan í opnum flokki er því þannig:

Daniel

Daniel Naroditsky (2601) missti af tækifærinu

1.-6. sæti með 5 vinninga
Westley So (2755)
Yangyi Yu (2697)
Ray Robson (2628)
Timur Gareev (2612)
Daniel Naroditsky (2601)
David Berczes (2471)

7.-.15 sæti með 4,5 vinninga
Xiangzhi Bu (2710)
Rauf Mamedov (2667)
Aleksey Dreev (2654)
Sergei Azarov (2639)
Evgeniy Najer (2635)
Julio Catalino Sadorra (2592)
Jianchao Zhou (2580)
Alejandro Ramirez (2574)
Gregory S Kaidanoc (2569)

Allir eiga þeir fræðilegan möguleika á að hreppa eitt af efstu fjórum sætunum sem gefa þátttökurétt í Milljóna mánudeginum.

Í lokaumferðinni mætast m.a.:

Wesley So – Timur Gareev
Daniel Naroditsky – Yangyi Yu
Ray Robson – David Berczes
Evgeniy Najer – Xiangzhi Bu
Rauf Mamedov – Jianchao Zhou

Nánar

Af okkar mönnum er það að frétta:

Í öllum flokkum eru veitt peniningaverðlaun fyrir fjölmörg sæti. Þannig eru 600$ fyrir 21.-50. sæti – 1.000$ fyrir 7.-20. sæti – 2.000$ fyrir 6. sæti – 3.000$ fyrir 5. sæti – 5.000$ fyrir 4. sæti – 10.000$ fyrir 3. sæti – 20.000$ fyrir 2. sæti og 40.000$ fyrir 1. sætið! Fjárhæðir í opnum flokki eru þó eitthvað hærri.

dagur_arngrimsson

Dagur Arngrímsson gerði jafntefli við GM Ruben Felgaer (2577) – Vinnur hann í lokaumferðinni?

Í opnum flokki  heldur Dagur Arngrímsson áfram að standa sig vel og gerði jafntefli við GM Ruben Felgaer (2577) –Guðmundur Kjartansson gerði jafntefli við FM Kazim Gulamali (2271) og Björn Þorfinnsson vann indverjann Adithya B. (2289).

Þeir félagar eru því allir með 3,5 vinning og eru í 36.-53. sæti. Þeir eiga fræðilega möguleika á að næla sér í verðlaun fyrir 7.-.20. sætið, en fyrir það fást 2.000$ – 21.-50.sætið í opnum flokki dugar til að vinna 1.000$. Þessu til viðbótar eru ýmis stigaverðlaun í opnum flokki, 2350-2499 og undir 2350 en þar eru talsverðar fjárhæðir í spilinu fyrir fjóra efstu í hvorum flokki fyrir sig.

Þeir mæta allir stórmeistara í lokaumferðinni. Guðmundur Kjartansson hefur svart á Varuzhan Akobian (2640), Björn Þorfinnsson hvítt á  Ioan-Cristian Chirila (2529) og Dagur Arngrímsson hefur svart á Carlos S. Matamoros Franco (2517).

Ólafur Kjartansson, sem teflir í u/2200 stiga flokki, tapaði sinni skák í 6. umferð. Í lokaumferðinni mætir hann Inimo Kigigha. Ólafur er í 39.-52. sæti og á, með sigri í lokaumferðinni, góða möguleika á að vinna til verðlauna fyrir 21.-50. sæti eða 600$.

Eftir tvo sigra í röð, tapaði Hermann Aðalsteinsson í 6. umferð. Því miður liggur ekki fyrir við hvern hann tefldi í 6. umferð – heimasíða mótsins er í algjöru lamasessi þegar kemur að öðrum flokkum en þeim opna. Hermann er í 18.-27. sæti með 3,5 vinninga. Það setur hann í ágæta stöðu fyrir lokaumferðina og hann ætti að geta tryggt sér peningaverðlaun með sigri. Hermann mætir David M Yates (1498) í 7. umferð.

Facebook athugasemdir