Dagur Arngrímsson

Milljónamótið: Dagur Arngrímsson í umspil um sæti á milljónamánudeginum – Fjórir tefla um laust sæti í opnum flokki

Lokaumferðin á milljónamótinu í Vegas var vægast sagt rosaleg.

Ungverjinn David Berczes (2471) var með pálmann í höndunum gegn yngsta stórmeistara amrískrar skáksögu, Ray Robson (2628). David, sem er 37. í stigaröð keppenda, hefði með sigri tryggt sér öruggt sæti í fjögura manna úrslitum á morgun. Staða Davids var mjög góð og gat hann nánast gert út um skákina í 39 leik.

david_robson

39.. Hxe4 hefði nánast gulltryggt sigur Davids

Hér átti David 39.. Hxe4 og málið svo gott sem dautt, enda getur hvítur tæplega valdað biskupinn á c2 eftir innrás hrókanna. Hann hins vegar lék 39..Rxc2 40. Hxc2 Db1 41. Kh2 og tók svo á e4. Staðan var enn talsvert betri á svart, en eftir næstu leiki jafnar svartur taflið.

rob_david

Eftir 45. Hxd3 Bxd3 46. Bxc5 Hc6 er úti um sóknartilburði svarts. Staðan er enn í járnum, en Robson lék á David í miklu tímahraki og innbyrti sigur í skákinni – afar óverðskuldað. Ray Robson (2628) tryggði sér öruggt sæti í fjögurra manna úrslitum með sigrinum, en David stendur eftir með ekkert, nema kannski 2.000$ í verðlaun fyrir 7.-21. sæti í mótinu.

Westley So (2755) innbyrti öruggan sigur gegn Timur Gareev (2612) og er einnig öruggur í úrslitinn.

Þá er röðin komin að þeim sem þurfa að tefla um tvö laus sæti í milljónamánudeginum.

Daniel

Daniel teflir í umspilinu

Daniel Naroditsky (2601) gerði litlaust jafntefli við kínverjann Yangyi Yu (2697) sem tryggði þeim báðum réttinn til að tefla í umspilinu. Kínverjinn Jianchao Zhou (2580) vann Rauf Mamedov (2667) frá Azerbæjan og tryggði sér einnig sæti í umspilinu. Þá vann Sergei Azarov (2639) góðan sigur á Alejandro Ramirez (2574) sem fleytir honum í umspilið.

Þeir Daniel Naroditsky (2601, Yangyi Yu (2697), Jianchao Zhou (2580) og Sergei Azarov (2639) tefla því um tvö laus sæti. Ballið byrjar kl. 01:00 aðfararnótt mánudagsins.

Þá að íslendingunum.

Hermann Aðalsteinsson gerði jafntefli í sinni skák og endar með fjóra vinninga af sjö í u/1600 stiga flokki. Ekki alslæmt og er hann líklega öruggur um verðlaun, spurningin er aðeins hvort hann verður fyrir ofan 21. sætið eða ekki, þ.e. hvort hann vinni 1.000$ eða 600$.

Ólafur Kjartansson – Engar upplýsingar liggja fyrir um skák Ólafs, enda heimasíða mótsins gjörsamlega vonlaus. Staða Ólafs verður uppfærð þegar henni þóknast að virka.

Björn Þorfinnsson og Guðmundur Kjartansson töpuðu báðir, Björn gegn Ioan-Cristian Chirila (2529) og Guðmundur gegn Varuzhan Akobian(2640). Þeir enda því mótið með 3,5 vinninga sem dugar ekki í efstu 50.

Dagur Anrgrímsson gerði sér lítið fyrir og gerði jafntefli í sinni skák gegn stórmeistaranum Carlos S. Matamoros Franco (2517), fjórða jafnteflið sem hann gerir við stórmeistara í mótinu. Árangur Dags dugar til þess að hann er nú að fara að tefla umspil um laust sæti í u/2499 stiga flokki, en 1. verðlaun þar eru hvorki meira né minna en 40.000$. Engar upplýsingar liggja fyrir um andstæðinga Dags í umspilinu – en þó er vitað að skákirnar byrja kl. 01:00.

 

 

Facebook athugasemdir