Mikil gleði á Polar Pelagic-skákhátíð Hróksins á Grænlandi

DSC_8704Skákhátíð Hróksins á Austur-Grænlandi stendur nú sem hæst og hefur gleðin verið allsráðandi. Hátíðin markar upphafið að 13. starfsári Hróksins á Grænlandi en alls hafa liðsmenn félagsins farið um 50 ferðir til að kynna fagnaðarerindi skákarinnar og til þess að stuðla að auknum samskiptum Íslands og Grænlands á sem flestum sviðum.

Hátíðin hófst í Kulusuk á miðvikudag og var efnt til skákveislu í grunnskólanum með þátttöku allra nemenda. Kulusuk er næsti nágrannabær Íslendinga og íbúar þar eru tæplega 300. Hróksmenn heimsóttu líka leikskólann með gjafir úr fatasöfnun Hróksins, sem efnt var til í haust í þágu barna á Austur-Grænlandi.

Leikskólinn í Kulusuk (9)Leiðangursmenn Hróksins eru Róbert Lagerman, Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt og Jón Grétar Magnússon. Þau héldu til Tasiilaq, höfuðstaðar Austur-Grænlands, á laugardag þar sem hátíðin heldur áfram. Þau munu m.a. heimsækja heimili og athvörf fyrir börn og ungmenni og koma færandi hendi með vandaðan fatnað og fleiri gjafir. Kjörorð leiðangursins er: Með gleðina að leiðarljósi.

Grænlenska útgerðarfélagið Polar Pelagic A/S, sem er að þriðjungi í eigu síldarvinnslunnar í Neskaupstað, er helsti bakhjarl hátíðarinnar ásamt Flugfélagi Íslands, TELE-POST á Grænlandi, Nóa Síríus, 66° NORÐUR, HENSON, Landsbankanum, 12 tónum, og fleiri íslenskum fyrirtækjum sem leggja til gjafir og verðlaun.

Hrókurinn undirbýr nú fleiri ferðir til Grænlands enda hefur skákin slegið í gegn hjá nágrönnum okkar og ótal gleðistundir skapast.

Facebook athugasemdir