Meistarinn í græna frakkanum á Cafe de la Régence

Cafe de la Régence í París var í árhundruð ein helsta vin skákgyðjunnar í heiminum. Þangað komu, fyrr eða síðar, helstu meistarar Evrópu og skoruðu á hina víðfrægu heimamenn.

Um langan aldur var François Antoine de Legall de Kermeur meistarinn á Cafe de la Régence, og þar með í heiminum. Hann fæddist 1702 og lifði allt til 1792. Samtíðarmaður hans lýsir því Legall hafi áratugum saman átt sitt borð á kaffihúsinu, þar sem hann sat í grænum frakka og gaf hverjum sem var kost á að taka skák. Gegn ákveðnu gjaldi, auðvitað, enda hefur okkar maður verið kallaður fyrsti atvinnumaðurinn í skák. Nýliðar á kaffihúsinu urðu að þiggja hrók í forgjöf frá meistaranum, síðan riddara eða biskup og þannig koll af kolli. Það tók allt að þrjú ár að ná þeim hæðum að tefla við meistarann mikla, án þess að hann gæfi forgjöf!

Hann þótti sérlega orðheppinn og skemmtilegur við skákborðið, og var lærifaðir sjálfs Philidors, langbesta skákmanns heims á seinni hluta 18. aldar. Eina skákin sem varðveist hefur með Legall er örstutt, enda sést þar mátstef sem við hann er kennt. Legall hefur hvítt!

Facebook athugasemdir