Bobby

Mannleg snerting: Um Bobby Fischer, heimsmeistarann sérlundaða sem dó á Íslandi

Bobby og íslenskur hestur

Bobby og íslenskur hestur

,,Nothing soothes pain like the touch of a person.“

— Hinstu orð Roberts James Fischers (1943-2008)

Honum var líkt við Newton, Beethoven og Einstein. Hann var mesti skákmeistari allra tíma. Hann skoraði Sovétríkin á hólm og sigraði. Hann var þjóðhetja í Bandaríkjunum, heiðursborgari New York, dáður um allan heim og honum stóðu allir vegir færir.

En Robert James Fischer fór aldrei eftir vegakortum. Hann treysti þeim ekki. Hann treysti engum. Hann treysti ekki læknunum, sem að öllum líkindum hefðu getað framlengt líf hans um ár eða áratugi. En hann treysti Magnúsi Skúlasyni fyrir lokaorðum sínum, og þau eru í fallegri mótsögn við allt líf hans.

Mannleg snerting? Harmleikur útlagans, sem var grafinn með leynd í litlum sveitakirkjugarði á köldum janúarmorgni, var sá að hann skyldi ekki fyrr komast að þeirri niðurstöðu, að ekkert jafnast á við að vera í snertingu við annað fólk.

Hue Yifan við gröf  Fischers

Hue Yifan við gröf Fischers

Fischer fæddist í Chicago 1943. Móðir hans var af pólskum gyðingaættum og faðirinn að öllum líkindum ungverskur gyðingur. Hún ól son sinn upp í New York og þar fylgdist FBI grannt með konunni, sem vitað var að hafði gengið í hjónaband í Moskvu árið 1933 og var alla tíð sanntrúaður kommúnisti.

Sjálfur Lenín hafði mælt svo fyrir um, að Sovétríkin ættu að verða stórveldi í skák – og sanna þannig með táknrænum hætti vitsmunalega  yfirburði kommúnismans. Eftir seinni heimsstyrjöldina virtist veldi Sovétmanna í skákheiminum óhagganlegt: Hver heimsmeistarinn á fætur öðrum kom úr þeirra röðum: Botvinnik, Smyslov, Tal, Petrosjan, Spassky. Skákin var stolt Sovétmanna í kalda stríðinu.

Hinn ungi Fischer var ákveðinn að brjóta þetta veldi á bak aftur. Táningur var hann orðinn fremsti skákmeistari Bandaríkjanna. Hann tefldi átta sinnum á meistaramóti Bandaríkjanna – og sigraði alltaf. En stóra takmarkið var að sigra Sovétríkin og ná sjálfum heimsmeistaratitlinum.Bobby hjá guðiHann var knúinn áfram af óbugandi viljaþreki og vopnaður snilligáfu. Hann hataðist við kommúnisma og snemma fór að bera á öfgafullu gyðingahatri, og hann gekk til liðs við sértrúarsöfnuð sem spáði heimsendi árið 1972 – árið sem Fischer komst sannarlega í snertingu við guðdóminn með taflmennsku sinni í Laugardalshöll. Árið sem heimur hans leið undir lok.

Fischer var orðinn útlagi löngu áður en bandarísk yfirvöld urðu sér til ævarandi minnkunar með því að gefa út handtökuskipun hans í öllum fylkjum Bandaríkjanna. Hann varð útlagi þegar hann stóð á tindinum, á sviði Laugardalshallar 1972, og komst ekki lengra.

Snilligáfan varð að eyðingarafli. Þegar Fischer dó hafði hann afneitað föðurlandi sínu, kynþætti sínum, trú sinni, vinum sínum og jafnvel sjálfri skáklistinni. Hann var útlagi sem að lokum fann griðastað í sérkennilegri bókabúð á horni Hverfisgötu og Klapparstígs.  Svona getur nú lífið oltið.

Facebook athugasemdir