Máni tefldi við á annað hundrað börn í Kópavogi

Hrókurinn heimsótti Snælandsskóla og Vatnsendaskóla í Kópavogi á þriðjudag, og Máni Hrafnsson tefldi fjöltefli við samtals á annað hundrað nemendur. Hróksliðar ætla í heimsókn að fara í öll sveitarfélög á Íslandi, í tilefni af 20 ára afmæli félagsins, og eru heimsóknirnar í Kópavogi framkvæmdar með stuðningi byggingafyrirtækisins MótX.

MótX hefur áður sýnt hug sinn í verki til skáklistarinnar. Þannig gaf fyrirtækið öllum grunnskólum Kópavogs 100 skáksett fyrir tveimur árum og stóð í framhaldinu að einvígi Nigel Shorts og Hjörvars Steins Grétarssonar í Salnum. Þá hafa MótX menn komið með Hróksliðum til Grænlands, og stutt skáklandnámið þar dyggilega, auk þess að styðja við skáklíf á Íslandi með margvíslegum hætti.

Máni Hrafnsson, sem heimsótt hefur fleiri grunnskóla á Íslandi en nokkur liðsmaður Hróksins, sagði að stemmningin í Kópavogi hefði verið frábær: ,,Við vissum að Kópavogur er skákbær, en ég átti ekki von á svona mörgum góðum mótherjum. Mestu skiptir að gleðin og vináttan voru í aðalhlutverkum,“ sagði Máni.

Facebook athugasemdir