Magnús Carlsen tapar heimsmeistaratitlinum á morgun skrifi hann ekki undir!

Það hefur varla farið fram hjá lesendum Hróksins að mikið uppnám einkennir stórviðburði hjá FIDE, alþjóða-skáksambandinu, um þessar mundir. Einvígi Carlsens og Andands er í tómu rugli, heimsmeistaramót kvenna einnig og Grand Prix mótaröðin sem er undanfari næsta áskorendamóts stendur lítið betur.

–          Skákheimar loga stafna á milli

–          Heimsmeistaraeinvígið í uppnámi: Beiðni um frestun hafnað

dresden07

Kirsan Ilyumzhinov Forseti FIDE og Israel Gelfer Varaforseti eru að gefast upp á biðinni

Enn bætist í óvissuna því á miðvikudag sagði Israel Gelfer, varaforseti FIDE, að Carlsen hefði frest út vikuna til þess að skrifa undir samninginn, ellegar verði hann sviptur heimsmeistaratitlinum.

Espen Agdestein [umboðsmaður Carlsens] sendi okkur bréf og óskaði eftir lengri samþykkisfresti. Hann hefur fengið svar frá mér og forseta FIDE [Kirsian Ilymumzhinov] þar sem fram kemur að það sé ekki hægt. Það er ekki hægt að gefa þeim lengri tíma. Einvígið hefst eftir rúma tvo mánuði. Með fullri virðingu fyrir heimsmeistaranum, þá getum við ekki beðið í margar vikur.

Þá segir Gelfer að hætta sé á því að styrktaraðilinn sé að missa þolinmæðina og líklegt sé að hann hætti við ef mál fari ekki að skýrast.

Einvígið gæti verið í hættu. Við vonum að þeir [Espen og Carlsen] hafi skilning á því. Vonandi skrifa þeir undir. Það standa engin rök til þess að fresta þessari ákvörðun.

Espen Agdestein og Magnús Carlsen eru í afar erfiðri stöðu

Espen Agdestein og Magnús Carlsen eru í afar erfiðri stöðu

Þá staðfestir GelferKarjakin taki sæti Carlsens ef hann skrifar ekki undir.

Ég vona að það gerist ekki. Fari svo að hann skrifi ekki undir, þá flyst rétturinn til að tefla einvígið yfir til Sergey Karjakins. Ég er bara að útskýra reglurnar og ég vona að það gerist ekki. Agdestein og Carlsen eru skynsamir menn. Ég vona að þeir hafi skilning á þessu.

Chess24 greinir frá.

Hrókurinn hefur áður greint frá því að Magnús Carlsen er staddur í Saint Louis í Bandaríkjunum og er þar að tefla í einu sterkasta skákmóti allra tíma. Þá hefur Espen Agdestein sagt að Carlsen þurfi að einbeita sér að taflmennskunni og taki því enga afstöðu til málefna tengdum einvíginu fyrr en að móti loknu, en því líkur þann 7. september en fresturinn sem FIDE gefur rennur út á föstudag, 29. ágúst.

r11_sergey_karjakin_russia_060

Sergey Karjakin skorast ekki undan ef sú staða kemur upp

Þessi nýjustu tíðindi setja Carlsen og liðsmenn hans því í afar erfiða stöðu. Espen Agdestein segir að vonlaust sé að leysa þessi mál á jafn skömmum tíma og krafist er af FIDE.

NRK birtir viðtal við Espen og spyr hann m.a. hvort hann hyggist ræða þessi mál við Carlsen á meðan hann er að tefla í Saint Louis.

Ég ræði alla jafnan ekki erfið mál við Carlsen á meðan hann er að tefla. Hann verður að fá frið til þess að einbeita sér að mótinu án ytra áreitis. Ég ætla að ræða þessi mál við aðstoðarmenn hans sem eru staddir þar með honum. [Líklega er átt við föður Magnúsar sem ávallt ferðast með honum á skákmót]

Þá birtir RBK Sport viðtal við Sergey Karjakin sem tekur sæti Magnúsar Carlsens ef sá síðarnefndi hættir við.

Í hreinskilni þá á ég ekki von á að sú staða komi upp. Ég trúi því ekki að Magnús neiti að tefla bara vegna þess að einvígið fari fram í Rússlandi. Hann hefur margoft teflt í landinu. Ef svo færi að hann hættir við þá er ég tilbúinn til þess að leysa hann af og tefla einvígið við Vishy Anand.

 

Facebook athugasemdir