Viswanathan Anand og Magnús Carlsen - 6. umferð í Sotsí

Magnús Carlsen er heimsmeistari!

1magnuscarlsenHeimsmeistaraeinvíginu í Sotsí er lokið með sigri Magnúsar Carlsen í 11. skákinni í dag. Magnús komst þannig í 6,5 vinninga gegn 4,5 vinningum Viswanathan Anands og er því útilokað að Anand geti jafnað metin í 12. og lokaumferðinni; hún verður því eðli máls skv. ekki tefld.

Anand byrjaði einvígið nokkuð vel, virtist vel undirbúinn og kom Magnúsi á óvart í fyrstu skákunum, sérstaklega þegar hann hafði hvítt. Að vísu tapaði hann strax í 2. umferð en svaraði strax fyrir sig í þeirri 3., sem var reyndar fyrsti sigur hans á Magnúsi í kappskák í rúm fjögur ár.

Anand varð svo fyrir áfalli í 6. skákinni þegar hann missti af grófum afleik Magnúsar sem hefði líklega fært honum sigurinn á silfurfati. Eftir það virðist sem Anand hafi tapað sjálfstraustinu og samdi stutt jafntefli í 7.,8.,9., og 10. umferðunum sem var ekki góð taktík þegar horft er til þess að hann varð að reyna hvað hann gat til að vinna og jafna metinn.

Staðan eftir 10. skákina var 5,5 gegn 4,5 og Magnús var með hvítt í 11. umferðinni – Anand virtist treysta alfarið á að halda jöfnu í dag, en þá hefði staðan orðið 6-5 fyrir Magga og ein skák eftir þar sem Anand hefði verið með hvítt og ætlaði greinilega að leggja allt í sölurnar til að reyna að jafna metin. Hefði það tekist þá yrði telft úrslitaeinvígi, fyrst atskákir og svo hraðskákir dugi það ekki.

Þetta gekk ekki upp, enda vann Maggi sem fyrr segir og verður áfram heimsmeistari a.m.k. til næstu tveggja ára.


Facebook athugasemdir