Maðurinn sem gerði jafntefli við Tal: Guðmundur Pálmason skákmeistari

Guðmundur Pálmason jarðelisfræðingur og skákmeistari

Guðmundur Pálmason jarðelisfræðingur og skákmeistari

Guðmundur Pálmason fæddist á Oddsstöðum í Dalasýslu 11. júní 1928 og lést í Reykjavík 11. mars 2004. Hann tefldi með landsliði Íslands á ólympíuskákmótum 1954, 1958 og 1961, alls 41 skák og var með rétt tæplega 50 prósent vinningshlutfall. Frægasta skák Guðmundar var gegn Mikail Tal á Reykjavíkurskákmótinu 1964. Þar hlaut ungi snillingurinn var Riga 12,5 vinning í 13 skákum. Eina jafnteflið var gegn Guðmundi, sem náði að gera fleiri heimsmeisturum skráveifu.

Guðmundur var jarðeðlisfræðingur og merkur vísindamaður og brautryðjandi í rannsóknum á jarðhita. Hann helgaði sig þannig aldrei skákinni, en bjó yfir miklum hæfileikum. Hér fara á eftir minningarorð Friðriks Ólafssonar um Guðmund, sem birtust í Morgunblaðinu 27. mars 2004:

Guðmundur Pálmason, skákmeistari og fyrrverandi forstöðumaður jarðhitadeildar Orkustofnunar, er látinn á 76. aldursári.

Guðmundur var fyrr á árum í hópi kunnustu skákmanna þjóðarinnar; ég átti því láni að fagna að eiga samleið með honum á þeim vettvangi um langt árabil. Með okkur stofnuðust traust vináttubönd sem aldrei bar skugga á þótt vissulega væri stundum tekist á af mikilli kappsemi á reitunum 64.

Það er mikil eftirsjá að Guðmundi Pálmasyni sem á farsælli vegferð sinni ekki einasta auðgaði íslenskt skáklíf með eftirminnilegum hætti – heldur og einnig hið íslenska og alþjóðlega vísindasamfélag – sem naut góðs af merkum fræðistörfum hans og rannsóknum á vettvangi jarðvísindanna. Með Guðmundi er genginn mikill hæfileikamaður og sannur heiðursmaður. Á skilnaðarstund kveð ég hann með virðingu; þakka honum samfylgdina um ævintýralendur skákarinnar – og trausta vináttu.

Guðmundur leit aldrei á skákina sem köllun, heldur fyrst og fremst sem íþrótt sem honum var sérstaklega hugleikin, enda hneigðist hugur hans snemma til náms.

Að stúdentsprófi loknu 1949 hélt hann til Svíþjóðar og útskrifaðist sem eðlisverkfræðingur frá Kungliga Tekniska Högskolan í Stokkhólmi 1955. Hann aflaði sér frekari menntunar í Bandaríkjunum með MS-prófi frá Purdue háskólanum í Lafayette 1957 og hlotnaðist nafnbótin Dr. scient. í jarðeðlisfræði frá HÍ 1971 er hann varði doktorsritgerð sína um jarðeðlisfræðilega könnun á jarðskorpu Íslands.

Eftir að Guðmundur hóf störf hér heima að námi loknu fór hann fljótlega að láta að sér kveða í sínu fagi og varð, þegar fram liðu stundir, einhver færasti sérfræðingur þjóðarinnar á sviði orkumála og jarðeðlisfræði. Hann var einn þeirra sem vann verk sín í kyrrþey en varð engu að síður vel kunnur víða um lönd fyrir rannsóknir sínar og fræðistörf. Guðmundi hlotnuðust margvíslegar viðurkenningar um ævina fyrir störf sín hérlendis og erlendis; ég eftirlæt það mér fróðari mönnum að gera þeim þætti nánari skil.

Fidel Castro og Friðrik Ólafsson á ólympíuskákmótinu í Havana 1966.

Fidel Castro og Friðrik Ólafsson á ólympíuskákmótinu í Havana 1966.

Að eðlisfari var Guðmundur maður hógvær og látlaus í framkomu en það duldist engum einbeitnin og sigurviljinn sem undir bjó þegar út í skákina var komið. Hann var góður félagi, gæddur góðri kímnigáfu og traustur hlekkur í keðjunni þegar reyndi á liðsheildina í sveitakeppnum, svo sem Ólympíumótum og heimsmeistaramótum stúdenta. Á þessum mótum stóð hann fyrir sínu og var jafnan einn helsti máttarstólpinn í liðinu.

Mér er sérstaklega minnisstæð frammistaða hans á stúdentamótinu í Lyon 1955 þar sem hann tefldi eins og sá sem valdið hefur og vann hverja skákina á fætur annarri gegn þekktum skákköppum. Taflmennska hans í þessu móti bar því glöggt vitni hvers hann var megnugur og verður mér ávallt óræk sönnun þess hversu miklum hæfileikum hann var búinn.

Upp í hugann koma svo minningarnar frá svæðamótinu í Marianske Lazne (Marienbad) í Tékkóslóvakíu 1954 þar sem við Guðmundur tefldum báðir fyrir Íslands hönd. Upphaflega átti Guðmundur að vera aðstoðarmaður minn í mótinu og hafði fengið tímabundið leyfi frá náminu í Stokkhólmi til að sinna því verkefni en málin skipuðust á þann veg að Guðmundur varð einn þátttakendanna þar sem einn erlendu keppendanna hafði gengið af skaptinu.

Mér er það í fersku minni hversu fór að fara um aðra keppendur í mótinu, sérstaklega þá öflugri, sem töldu sig eiga vísan farmiða á næsta millisvæðamót, þegar Guðmundur tók að raka til sín vinningum í fyrstu umferðunum. Eftir 3 umferðir var Guðmundur í efsta sæti með fullt hús vinninga og eftir 5 umferðir vorum við Guðmundur jafnir í 3.-4. sæti með 4 vinninga hvor, aðeins hálfum vinninga á eftir efstu mönnum.

Mikhail Botvinnik árið 1962. Áhrifavaldur á Guðmund Pálmason og ótal aðra skákmenn.

Mikhail Botvinnik árið 1962. Áhrifavaldur á Guðmund Pálmason og ótal aðra skákmenn.

Á tímabili virtist því stefna í það að tveir Íslendingar ynnu sér rétt til þátttöku á millisvæðamóti, en því miður dapraðist okkur flugið þegar á leið og farmiðarnir á millisvæðamótið féllu í aðrar hendur. En þetta voru góðir dagar og síðar á ævinni merla svona minningar.

Ég hygg að Guðmundur hafi verið einhver hæfileikaríkasti skákmaður sem fram hefur komið á sjónarsviðið hér á landi og er þess fullviss að hann hefði komist í fremstu röð hefði hann látið á það reyna.

Þegar ég renni augunum yfir skákir Guðmundar og hugleiði skákstíl hans kemur mér ávallt í hug sovéski skáksnillingurinn, Michael Botvinnik, sem á menntaskólaárum Guðmundar þótti bera ægishjálm yfir aðra skákmenn í heiminum, sérstaklega á fyrstu árunum eftir heimsstyrjöldina síðari. Ekki er ósennilegt að eitthvað í skákstíl Botvinniks hafi höfðað til Guðmundur og að hann hafi sótt eitt og annað í smiðju til Botvinniks.

Báðir nálguðust þeir viðfangsefnið með vísindalegri nákvæmni og innsæi – á rökvísan hátt eins og sönnum vísindamönnum sæmir. Ég ætlaði mér alltaf að spyrja Guðmund um þetta en því miður varð aldrei neitt úr því.

Ég þakka Guðmundi enn á ný samfylgdina. Við Auður sendum Ólöfu og öðrum ástvinum innilegustu samúðarkveðjur okkar.

Friðrik Ólafsson.

Facebook athugasemdir