Loftskeytaárás á Færeyjar!

Árið 1945 var efnt til einskonar landskeppni Íslands og Færeyja í skák. Tefldar voru tvær loftskeytaskákir, eftir því sem næst verður komist og unnu Íslendingarnir báðar. Um var að ræða samráðsskák og voru þrír í hverju liði.  Hér lítum við á skák sem þrír af bestu skákmönnum Íslands tefldu í sameiningu: Ásmundur Ásgeirsson (1906-1986), Eggert Gilfer (1892-1960) og Guðmundur S. Guðmundsson (1918-1974). Andstæðingar íslensku meistaranna voru Palli HenriksenThorarinn Evensson og Jan Jaensen.

Ásmundur var skákmeistari Íslands 1931, 1933 og 1944-46. Hann tefldi á fjórum ólympíuskákmótum á fjórða áratugnum. Ásmundur lærði ekki mannganginn fyrr en hann var orðinn 17 ára.

Eggert Gilfer er goðsögn í íslensku skáklífi, enda var hann meðal okkar helstu meistara í áratugi. Hann varð efstur á Skákþingi Íslands 1915, 1917, 1918, 1920, 1925, 1927, 1929, 1935 og 1952.  Hann var í fyrstu ólympíulandsliðum Íslands, og jafnframt einn fyrsti íslenskri skákmeistarinn til að tefla fjöltefli.

Guðmundur S. Guðmundsson var í hópi bestu skákmanna Íslands á árunum 1942-1955 og var skákmeistari Íslands 1954. Hann varð einna fyrstur Íslendinga til að gera strandhögg á erlendri grund, og náði frábærum árangri á Hastings-mótinu 1946-47.

Íslendingarnir beittu franskri vörn gegn Færeyingunum og tefldu af mikilli festu. Hvíta staðan er rjúkandi rúst eftir 28 leiki. Í skýringum Ásmundar Ásgeirssonar með skákinni, í tímaritinu Skák 1947, klykkir íslenski meistarinn út með orðunum: ,,Hörkulega tefld frönsk vörn.“

Facebook athugasemdir