Létt viðkynning við Fischer

Kári Elíson skrifar:

Kari_elisonÞað skapar svoldið sérstakt andrúmsloft hjá sjálfum mér þegar ég hugsa til baka allt að febrúar 2006. Esjan skartaði hvítum toppi og svalt vetrarloftið lék um borgarbúa í Reykjavík. Og enginn annar en ég varð samferða Bobby Fischer tvisvar sinnum í strætó þennan mánuð!

Ég bjó enn að Skákstöðum á Hringbraut 113 og tók strætó rétt við Loftshúsið. Ég var staddur í fjarkanum á leið í einhverja fasteignasölu austur í bæ þegar strætó stoppar á Hverfisgötu rétt við það sem heitir núna Bíó Paradís. Ég sit aftarlega í vagninum en sé mann fyrir utan stoppustöðina sem minnir mig strax á Fischer. Það var þessi útilegumannasvipur á honum sem maður þekkti úr sjónvarpinu.

Ó,jú þetta var sko Fischer! Og hann kemur inn í vagninn og sest framarlega svo ég náði ekki að virða hann frekara fyrir mér. Hann hefur vafalaust verið að koma úr stúderingum í Bókabúð Braga sem er þarna rétt hjá. Fischer fer síðan úr vagninum á Laugaveginum við Þjóðskjalasafn Íslands. Samkvæmt almennum kjaftasögum  þessa tíma var hann þar oft að skoða ýmis gyðingleg fræði.

Viku síðar er ég aftur á þessari leið með fjarkanum. Þetta var síðdegis og heldur farið að skyggja og gráleitt mistur reikaði yfir göturnar. Fischer kemur síðan í vagninn frá sama stað og áður. Að þessu sinni er með honum í för fíngerð japönsk kona sem ég vissi á nóinu að væri Miyoko Watei eiginkona hans. Fischer var í gallabuxum og skyrtu og með derhúfu á höfði sér. Hann gekk svolítið álútur og virtist svoldið hengslalegur en samt frjálslegur í fasi..

Robert J. Fischer og Miyoko Watei

Robert J. Fischer og Miyoko Watei

Þau hjón ræddu margt og mikið í vagninum en ég var fjarri þeim og heyrði eigi orðaskil. Þau fara síðan út á Hlemmi og ég líka. Það er slatti af allskonar liði þarna á sveimi en enginn virðist veita Fischer sérstaka athygli. Þar sem ég hafði þekkt hann af skákum hans sem ofurlegend í áratugi og orðið honum samferða í strætó tvisvar fannst mér sem við værum orðnir ágætis kunningjar.(þótt Fischer hefði ekki hugmynd um það)

Ég ákvað því að heilsa upp á kappann þar sem hann tvísteig þarna á gangstéttinni við Hlemm. Ég var að hugsa um að skella á hann frasanum: How do you lke Iceland? en það hefði verið óforskammað svo ég sagði kumpánlega:

Hello mister Fischer,welcome to Iceland!..

Hann leit á mig snörum augum í nokkru ósamræmi við ytra útlit og svaraði síðan kurteislega:

Thank you,its very good to be here!

Kona hans starði á mig án þess að segja nokkuð en svo bætti meistarinn við:

Icelanders are very friendly!…

Ég gleymdi alveg að kynna mig enda óþarfi fyrir gamla kunningja að gera slíkt í sjálfu sér þótt ég hafi í upphafi jafnvel átt von á því að hann segði mér að fara til fjandans. Ég sagði svo heldur flausturslega:

„Its vas great how you gave the russians treatment!“…

Mér fannst sem það glaðnaði yfir snillingnum en kannski var það ímyndun. Allavega svaraði Fischer þessu:

Yes.it was good times back then!..

Síðan lyfti hann hendinni að derhúfunni og kvaddi mig virðulega.  Þau hjón hurfu síðan handan við Hlemmhúsið út í mistrið og móðuna… Og ég sá Fischer aldrei aftur.

————-

fischer_1960

Bobby Fischer á Ólympíumótinu í Leipzig 1960.

Þegar ég kom heim um kvöldið fór ég beint að skoða uppáhaldsskák mína með Fischer. Hún var tefld í Þýskalandi 1960. Fischer var þá nýkominn af undrabarnsárunum og var 17 ára gamall á Olympíumóti. Andstæðingur hans Letelier frá Chile (1915-2006) var fimmfaldur meistari í heimalandinu og lenti þarna heldur betur í hakkavél framtíðar.

Ég man þegar ég skoðaði þessa skák fyrst 15 ára gamall að ég var alveg í forundran þegar ég sá lokaleikinn 23.Qxf4+!!..Eftir störun á stöðuna í nokkra stund sá ég hið óvænta stef: 24.Kxf4 Bh6+ mát!.. Hvílíkt og annað eins!.. heldur betur óvænt. Leiki hvítur einhverju öðru eins og t.d. 24.Ke2 kemur Rd4+ og vinnur Bf3 einnig vinnur svartur létt eftir 24.Kf2 með Rg4+ eða Rd4… Letelier varð svo mikið um drottningarfórnina að hann gafst strax upp.

Það var sagt um Aljekín og Tal að þeir tækju andstæðinga sína á taugum og dáleiddu þá jafnvel. (Aljekin var með geðlæknagráðu!) Fischer var einnig ásakaður um svipað á hreinsunarárunum  Bandaríska 11-0 ,,Taimanov 6-0.. Larsen 6-0 o.s.frv. Hann svaraði þessu þannig:

Ég trúi ekki á sálfræði,ég trúi á góða leiki!

Lepzig OL 1960

Hvítt: Rene Letelier Chile
Svart: Bobby Fischer USA

Kóngsindversk vörn

Facebook athugasemdir