Leikskólinn og hjúkrunarheimilið í Ittoqqortoormiit

Þó formlegum skákviðburðum lyki í gær fór skáktrúboðið ekki í frí. Leiðangurmenn heimsóttu leikskóla þorpsins nú í morgunsárið og færðu börnunum þar gjafir og skáksett. Skákmeistari ferðarinnar, Róbert Lagerman, hélt síðan stutta tölu um gildi skákkennslu á öllum aldursstigum fyrir kennara skólans. Elsta árganginum var síðan fært skákhefti á austur-grænlesku sem tilvalið verður að stauta sig í gegnum samhliða aukinni lestrarfærni. 

Næsti viðkomustaður var hjúkrunarheimilið og þar sem forstöðukona tók vel á móti Hróksliðum og tók á móti skáksetti fyrir hönd staðarins. Hróksliðar höfðu heyrt útundan sér að ekkert skáksett væri til á heimili staðarins og var því ákveðið að bæta snarlega úr því.

Leiðangursmenn kveðja þetta yndislega þorp með söknuði og eru bæði stoltir og glaðir yfir öllum þeim brosum og þeirri kátínu sem þessi skákveisla Hróksins hefur vakið.

.


Created with flickr slideshow.

Facebook athugasemdir