Læknir bregður fæti fyrir stórmeistara

,,Eitt furðulegasta skákmót sem ég hef tekið þátt í fór fram í Heimaey árið 1985 í þrúgandi nærveru rjúkandi eldfjalls…“

Með þessum orðum hófst pistill eftir Nigel Short í enska stórblaðinu Sunday Telegraph árið 2004, þar sem hann rifjaði upp fyrstu heimsókn sína til Íslands. Alþjóðlega mótið í Vestmannaeyjum var á margan hátt sögulegt, eins og lesendur okkar hafa fengið að kynnast lítillega.

Tveir Eyjamenn kepptu á mótinu: Helgi Ólafsson og Björn Ívar Karlsson. Sá fyrrnefndi var orðinn stórmeistari og löngu fluttur á meginlandið en Björn Ívar var virtur og ástsæll læknir í Heimaey; sonarsonur hans og alnafni hefur haldið uppi merki ættarinnar við skákborðið hin síðari ár.

En höldum áfram með pistil Shorts. Keppendur á skákmótinu gistu í heimahúsum og borðuðu í mötuleyti frystihúss, og á kvöldin var glatt á hjalla hjá ungu keppendunum sem settu mjög svip á næturlífið í Heimaey. Gefum Short orðið:

,,Helgi Ólafsson stórmeistari nikkaði í áttina að föngulegum kvenkyns félaga sínum, hallaði sér að mér og hvíslaði: ,,Ég var í örmum hennar nóttina sem eldgosið hófst.“ Í fyrstu var ég orðlaus af aðdáun og smáskammti af öfund. En eftir að hafa heyrt sömu staðhæfingu fimm kvöld í röð — um fimm mismunandi stúlkur — áttaði ég mig á því að það var meira en vottur af skáldskap í gorti Helga. Sagnahefðin lifir greinilega góðu lífi á Íslandi.“

Helgi stóð sig annars best Íslendinganna á mótinu. Hann tapaði ekki skák og í síðustu umferðinni gat hann náð bandaríska stórmeistaranum Lein með því að leggja dr. Björn Ívar að velli. Lækninum hafði ekki vegnað sérstaklega vel, enda stigalægstur keppenda, en hafði þó m.a. gert jafntefli við garpa á borð við Jón L. Árnason og Ingvar Ásmundsson. Flestir bjuggust við öruggum sigri Helga, enda hafði hann hvítt og 315 skákstig skildu keppendur að.

En Björn Ívar var sýnd veiði en ekki gefin og í mikilli baráttuskák náði hann um síðir að þráleika, svo Helgi varð að sætta sig við jafntefli og 2. sætið, en fjölmargir áhorfendur klöppuðu hinum þrautseiga lækni lof í lófa.

Facebook athugasemdir