Kóngur í vígahug

Enska goðsögnin Nigel Short, f. 1965, mætir Hjörvari Steini Grétarssyni í MótX-einvíginu í Salnum í Kópavogi, helgina 21.-22. maí. Short vakti kornungur athygli fyrir snilld sína, enda sannkallað undrabarn í skák.

Hann tefldi við sjálfan Garry Kasparov um heimsmeistaratitilinn 1993, sama ár og Hjörvar Steinn fæddist í þennan heim. Short, sem sigrað hefur á ótal alþjóðlegum skákmótum, varð efstur á hinu firnasterka IBM-skákmóti í Reykjavík 1987 og í 2. sæti á eftir Hannesi Hlífari Stefánssyni á Reykjavíkumótinu 2000. Tveimur árum síðar skellti Short svo Hannesi í einvígi í Reykjavík. Alls hefur enski snillingurinn tekið þátt í sjö skákviðburðum á Íslandi, nú síðast á EM-landsliða í haust.

Skák dagsins var hinsvegar tefld á stórmótinu í Tilburg 1991. Fórnarlamb Shorts er annar Íslandsvinur, Jan Timman. Fylgist með hinu ótrúlega ferðalagi hvíta kóngsins!

Facebook athugasemdir