Kaffihúsaskákin við þjóðhetju Færeyja

Færeyjar voru í gær 14 nóv 2014 að vinna sinn fræknasta sigur í fótbolta með því að gera Grikkjum grikk í Grikklandi 0-1 í Evrópukeppni! Í tilefni þess heyrðust strax raddir  koma upp með það að ég yrði að birta hérna tveggja hróksfórna skákina mína við manninn sem varð þjóðhetja í eyjunum þegar Færeyjar unnu Austurríki 1-0 í fótbolta á EM 1992!

Torkil Nielsen heitir hann og hann skoraði sigurmarkið gegn Austurríki. Torkil þessi  var um tíma landsliðsmaður í skák,fótbolta og blaki! Torkil er vel vaxinn góðlegur náungi, vörpulegur á velli og teflir skák í kaffihúsastíl.

[youtube http://www.youtube.com/watch?v=n3gUa0cxvNo]

Landskeppni við Færeyjar  er viss skákviðburður sem hefur farið fram lengi. Íslendingar unnu fyrstu tvær keppnirnar 1975 og 1976 með svo miklum yfirburðum að fyrirkomulaginu var breytt og eftir það hefur landslið Íslands verið nokkurskonar B-lið valið frá Norður og Austurlandi og er keppnin haldin til skiptis á Íslandi og í Færeyjum. Hafa nú Færeyjar unnið nokkrar keppnir og skák stendur þar með miklum blóma og þeir eiga hina ýmsu ágætu meistara sem tefla á Olympíumótum og allt hvað eina.

Ég hef teflt í þremur svona Landskeppnum og ekki gengið sérlega vel..Tapað tveimur skákum,unnið eina og þrjú jafntefli (Auk tveggja atskáka sem ég vann) en allavega hafa tvær þessara skáka þótt hafa talsvert skemmtigildi. Önnur þeirra sem varð jafntefli birti ég við tækifæri.

Árið 1989 var keppnin haldin í Sandvogi í Færeyjum. Pálmi Pétursson skrifaði í Skákblaðið skemmtilega grein um keppnina en ég afturámóti skrifaði grein um keppnina 1985 en henni er ég búinn að týna enda tapaði ég þá báðum skákunum.

Torkil Nielsen

Torkil Nielsen

Torkil Nilsen teflir við Sigurð Eiríksson - Landsdystur 2009, Klakksvik.

Torkil Nielsen teflir við Sigurð Eiríksson – Landsdystur 2009, Klakksvik.

Ég var með hvítt í fyrri skákinni við Torkil Nielsen. Upp kom Kóngsbragð ,Falkbeer afbrigði. 1.e4 e5 2.f4 d5  Ég lék þá fremur sjaldséðum leik 3.Rf3!? Þar fór ég í smiðju hins íslenska gambit meistara Stefáns Briem sem ég hafði eitt sinn teflt magnaða skák við í Deildakeppninni og spáum við í þá skák síðar.

Torkil lék eitthvað þokukennt samkvæmt veðrinu úti og þegar ég lék hinum óvænta 7.Ba6! fór kurr um skáksalinn og síðan fór allt kaffihúsastríðið í gang.. Torkil hirti hrók á a1 í anda nítjándu aldar og ég svaraði með allskyns sóknarleikjum og svældi kóng svarts fram á borðið og þegar ég fórnaði seinni hróknum með 17.Hh5+! var ljóst að svartur var búinn á því ( forfærdelig á færeysku!).

Færeyjar 1989

Hvítt: Kári Elíson
Svart: Torkil Nielsen

Svartur gafst upp. Hann er mát eftir 20.Kf4 Df3+

Og þótt Torkil hafi ekki náð að sýna sitt besta í þessari skák þá tefldi hann betur í hinni skákinni sem varð jafntefli. Hann er líka og verður alltaf þjóðhetja í Færeyjum þótt nýr markaskorari sé þar kominn fram í fótboltanum….

Facebook athugasemdir