K – K: Skák tvö – Missti Kasparov af vinningi eða var það Karpov?

Skákheimar eiga stórafmæli nú um mundir enda 30 ár frá upphafi mestu einvígisbaráttu allra tíma – og það óháð íþróttagrein.

Þann 12. september 1984 mættust Karpov og Kasparov í 2. einvígisskák fyrsta einvígisins. Skákirnar urðu alls 144 líkt og rakið var í síðustu skák dagsins.

Kasparov hafði hvítt í 2. skákinni. Í sjöunda leik fórnaði hann peði fyrir óljós færi en fórnin hafði áður sést í 12. einvígisskák Korchnoi og Polugaevsky árið 1980 er þeir glímdu um sæti við heimsmeistaraeinvígisborðið; Polugaevsky vann þá skák með stæl.

Kasparov breytti útaf skák þeirra með 13. leik sínum og missti líklega af góðum færum í 21. leik, en leyfði Karpov þess í stað að ná frumkvæðinu.

Kasparov fórnaði skiptamun í 26. leik og þung undiralda myndaðist á skákborðinu. Líklega missti Karpov af vinningsfærum í framhaldinu og varð að lokum að gefa lið til baka til að hrinda mátsókn Kasparovs. Skákin fór í bið eftir 40 leiki; Kasparov innsiglaði 40. Hxf6 enda fátt annað að gera. Talið var að staðan væri gjörunnin hjá Karpov en Kasparov var ekki sama sinnis og fann þvingaða þráskák í stöðunni.

Facebook athugasemdir