Jón L. og Guðjón Kristinsson frá Dröngum með verðlaunagripinn góða.

Jón L. Árnason sigraði með glæsibrag á minningarmóti Jóhönnu

Skáhátíð í Árneshreppi:

Allir voru sigurvegarar á minningamóti Jóhönnu Kristjónsdóttur.

Gestir á skákhátíðina komu í langferðabifreið frá Grayline og fengu að kynnast stórkostlegri náttúru og mannlífi í Árneshreppi. Myndin er frá Djúpavík.

Jón L. Árnason vann stórglæsilegan sigur á minningarmóti Jóhönnu Kristjónsdóttur á skákhátíð Hróksins í Árneshreppi nú um helgina. Jón lagði alla andstæðinga sína og fékk 8 vinninga af 8 mögulegum. Jóhann Hjartarson, nýkrýndur Norðurlandameistari, varð annar með 7 vinninga, og í 3.-4. sæti urðu Íslandsmeistarinn Guðmundur Kjartansson og Eiríkur K. Björnsson.

Mótið var tileinkað minningu Jóhönnu, sem lést 11. maí sl. Hún var einn ötulasti liðsmaður Hróksins og með sterk tengsl við Árneshrepp. Tækifærið var að sjálfsögðu notað og safnað fyrir Fatimusjóðinn, en í gegnum hann safnaði Jóhanna milljónatugum gegnum árin í þágu barna og nauðstaddra í Miðausturlöndum og Afríku.

Skákhátíðin hófst á föstudaginn og komu um fimmtíu gestir úr öllum áttum til að vera með í veislunni. Heiðursgestir voru Harald Bianco, skólastjóri í Kuummiut, og fjölskylda hans, en Harald hefur um árabil verið helsta hjálparhella Hróksliða við að útbreiða skák á Grænlandi.

Minningarmót Jóhönnu, sem haldið var í félagsheimilinu í Trékyllisvík var bráðskemmtilegt og fjölmargir fylgdust með tilþrifum meistaranna.

Hrafn Jökulsson ásamt Harald Bianco og fjölskyldu, en þau voru heiðursgestir skákhátíðar Hróksins í Árneshreppi.

Snemma var ljóst að Jón L. Árnason, heimsmeistari sveina fyrir fjórum áratugum, var maður dagins. Hann vann flestar skákir sínar af öryggi og lenti aldrei í taphættu. Alls voru keppendur á mótinu um þrjátíu og komu sumir um langan veg, til að spreyta sig gegn meisturunum og harðsnúnum fulltrúum heimamanna.

Í kjölfar mótsins var efnt til glæsilegs hátíðarkvöldverðar, þar sem verðlaun og viðurkenningar voru veittar.

Verðlaunagripurinn var enginn venjulegur bikar, heldur útskorinn rekaviðardrumbur eftir Guðjón Kristinsson frá Dröngum.

Þá hannaði Valgeir Benediktsson handverksmaður í Kört minjagrip hátíðarinnar, sem aðeins var framleiddur í 20 eintökum.

Jón L. Árnason, lengst til vinstri, og glaðir þátttakendur í skákveislu á Ströndum.

Norðurlandameistarinn Lenka Ptacnikova varð efst kvenna, en það var sérlega ánægjulegt að margar bestu skákkonur Íslands tóku þátt í mótinu.

Hátíðin hófst á föstudaginn með tvískákarmóti, en þar eru tveir saman í liði. Sigurvegarar voru Róbert Lagerman og Kormákur Bragason.

Lokapunktur skákhátíðar í Árneshreppi 2017 var hraðskákmót í Kaffi Norðurfirði á sunnudag. Þar sýndi Íslandsmeistarinn Guðmundur Kjartansson klærnar og sigraði með fullu húsi, fékk 6 vinninga í jafnmörgum skákum. Jóhann Hjartarson varð í 2. sæti en þau Kristinn Jens Sigurþórsson og Lenka urðu í 3.-4. sæti.

Úrslit á minningarmóti Jóhönnu Kristjónsdóttur: http://www.chess-results.com/tnr287597.aspx?lan=1&art=1&fed=ISL&wi=821

Facebook athugasemdir