Jóhann Hjartarson og KK fóru á kostum í Pakkhúsi Hróksins: Friðrik Ólafsson heiðursgestur á sunnudag — Allir velkomnir!

6

KK syngur um æðruleysi og Jóhann stýrir svörtum mönnum. Stórmeistarinn bauð öllum andstæðingum sínum að hafa hvítt.

Jóhann Hjartarson, stigahæsti skákmaður Íslands, gaf engin færi á sér þegar hann tefldi fjöltefli við 17 skákáhugamenn á aldrinum 7 til 73 ára í Pakkhúsi Hróksins á laugardag. Flestir af mótherjum stórmeistarans voru úr úrvalsliði Björns Ívars Karlssonar og náðu tveir ungir skákmenn jafntefli við Jóhann. Það voru Mikael Kravchuk, 11 ára, og Bárður Örn Birkisson, 14 ára.

Snillingurinn KK mætti á svæðið með gítarinn, svo góður andi sveif yfir vötnum í Pakkhúsinu við Reykjavíkurhöfn, þar sem er miðstöð fatasöfnunar Hróksins fyrir börn á Austur-Grænlandi.

Jóhann Hjartarson er fæddur 8. febrúar 1963. Hann varð alþjóðlegur meistari 1984, og stórmeistari 1985. Hann hefur fimm sinnum orðið Íslandsmeistari í skák: 1980, 1984, 1994, 1995 og 1997. Hann er einn af hinum svonefndu ,,fjórmenningum“ sem mynduðu besta landslið sem Ísland hefur teflt fram. Hinir eru stórmeistararnir Helgi Ólafsson, Jón L. Árnason og Margeir Pétursson.

8

Úrvalsliðar Björns Ívars stóðu sig með sóma.

Jóhann vann einn frægasta sigur íslenskrar skáksögu þegar hann lagði Viktor Korchnoj í átta manna úrslitum heimsmeistarakeppninnar. Hann tapaði fyrir Anatoly Karpov í undanúrslitum og er sá Íslendingur sem náð hefur lengst í keppninni um heimsmeistaratitilinn.

Jóhann var í hinu goðsagnakennda liði Hróksins, sem rakaði til sín gullverðlaunum á Íslandsmóti skákfélaga á árunum upp úr aldamótunum 2000.

Mótherjar Jóhanns í Pakkhúsinu í dag voru Þorsteinn Magnússon (14 ára), Björn Hólm Birkisson (14 ára), Kári Siguringason (5 ára), Vignir Vatnar Stefánsson (11 ára), Mikael Kravchuk (11 ára), Óskar Víkingur Davíðsson (9 ára), Brynjar Haraldsson (10 ára), Sólon Siguringason (9 ára), Árni Ólafsson (9 ára), Stefán Orri Davíðsson (8 ára), Birgir Logi Steinþórsson (9 ára), Jónas Ástráðsson (73 ára), Hlynur Smári Þórðarson (67 ára), Hjálmar Hrafn Sigurvaldason (41 árs) og Siguringi Sigurjónsson (43 ára).

2

KK & Brynjar. Svart og hvítt. Tónlist og þögn. Og allir í góðu skapi.

Meðan á fjölteflinu stóð komu heilmargir vinir Grænlands með framlög í fatasöfnunina. Og þegar fjölteflið var að nálgast hápunkt kom sjálfur KK, vopnaður gítar, og tók lagið fyrir skákmenn og áhorfendur. KK er sérlegur vinur Hróksins, alltaf boðinn og búinn í þágu málstaðarins.

Frábær dagur í Pakkhúsinu!

Á morgun sunnudag höfum við opið milli 14 og 16. Skákþyrstir vinir á öllum aldri hjartanlega velkomnir.

Sjálfur Friðrik Ólafsson er heiðursgestur dagsins. Friðrik varð stórmeistari 1958, fyrstur Íslendinga og var um árabil í hópi sterkustu skákmanna heims.

Komið fagnandi í Pakkhús Hróksins!

Facebook athugasemdir