Jafnt í hálfleik í MótX-einvíginu í skák

MótX2

Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslendinga og fv. forseti FIDE, óskar keppendum í MótX-einvíginu góðs gengis.

Skákmeistararnir Nigel Short og Hjörvar Steinn Grétarsson eru jafnir eftir fyrri dag MótX-einvígisins í Salnum í Kópavogi. Fyrstu þrjár skákirnar voru tefldar á laugardag og voru allar bráðfjörugar og spennandi. Fyrstu skákinni lauk með jafntefli eftir miklar sviptingar, Hjörvar Steinn vann góðan sigur í annarri skákinni en Nigel Short jafnaði metin í síðustu skák dagsins. Seinni hluti einvígisins fer fram á sunnudag og hefst klukkan 14.

Skákfélagið Hrókurinn skipuleggur MótX-einvígið og í setningarávarpi fagnaði Hrafn Jökulsson, forseti félagsins, því að geta boðið skákunnendum upp á viðureign meistaranna tveggja. Nigel Short er goðsögn í skákheiminum og tefldi um heimsmeistaratitilinn við Garry Kasparov 1993, sama ár og Hjörvar Steinn fæddist. Hjörvar er yngsti stórmeistari Íslendinga og eru miklar vonir við hann bundnar.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs býr sig undir að leika fyrsta leikinn fyrir Nigel Short gegn Hjörvari Steini Grétarssyni. Omar Salama yfirdómari og Viggó Einar Hjálmarsson fjármálastjóri MótX fylgjast með.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs býr sig undir að leika fyrsta leikinn fyrir Nigel Short gegn Hjörvari Steini Grétarssyni. Omar Salama yfirdómari og Viggó Einar Hjálmarsson fjármálastjóri MótX fylgjast með.

Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslands og fv. forseti FIDE, ávarpaði fjölmarga gesti við setningarathöfn í Kópavogi og óskaði keppendum góðs gengis, áður en Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri lék fyrsta leikinn fyrir Short.

Hjörvar tefldi skínandi vel í fyrstu skákinni og byggði upp vinningsstöðu. Í tímahraki í endatafli tókst Short að losna úr klemmunni og slapp með skrekkinn. Ungi Íslendingurinn gaf hinsvegar engin grið í annarri einvígisskákinni og vann mjög góðan sigur. Í þriðju skákinni sýndi Short afhverju hann hefur verið í fremstu röð um áratugaskeið og þjarmaði hægt og bítandi að Hjörvari, sem varð að játa sig sigraðan.

Fjölmargir skákáhugamenn fylgdust með fyrri degi MótX-einvígisins við frábærar aðstæður í Salnum. Seinni hálfleikur hefst á sunnudag klukkan 14 og þá verða þrjár skákir tefldar til viðbótar. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Facebook athugasemdir