Indverska hraðlestin á ráspól í Sotsí

Anand byrjar með hvítt

Anand byrjar með hvítt

Það hefur vart farið framhjá nokkru mannsbarni að peðin eru farin að rúlla í Ólympíuþorpinu Sotsí í Rússlandi. Þar mætast vinirnir Viswanathan Anand sem er í hlutverki áskorandans og Magnús Carlsen heimsmeistari í skák. Þessir sömu mættust einmitt í Chennai á Indlandi fyrir tæpu ári síðan, en þá voru hlutverkin öfug; Carlsen vann örugglega og nú fær Anand tækifæri til að hefna.

Fyrir einvígið hafði Anand ekki tekist að vinna kappskák gegn Magnúsi í heila 49 mánuði!, næstum því upp á dag; það gerðist síðast þann 10.10.10 á Meistaramótinu í Bilbao í samnefndri borg á Spáni. Skákin fær að fljóta með, aðdáendum Anands til halds og trausts:

Miklar vangaveltur höfðu verið um hvernig aðstoðarmannateymi Anands yrði samansett að þessu sinni, þá sérstaklega hvaða breytingar hann hefði gert frá því í Chennai í fyrra, enda tapaði hann þeirri baráttu nokkuð örugglega líkt og kom fram að ofan.

Á blaðamannafundi fyrir einvígið sagði Anand þegar hann var inntur eftir hverjir aðstoðarmenn hans væru í Sochi: Krishnan Sasikiran, Radoslav Wojtaszek og Gajewski.

Saskiran og Wojtaszek voru í liði Anands í Chennai á síðasta ári ásamt Peter Leko og Sandipan Chanda. Sadispian Chanda er ekki í hópi aðstoðarmanna Anands að þessu sinni, en er samt sem áður á staðnum og virðist hafa öðru hlutverki að gegna en áður.

Pólverjinn og Víkingurinn Grzegorz Gajewski kemur því nýr inn en Peter Leko fær ekki að vera með að þessu sinni.

Magnús hefur minni áhyggjur af aðstoðarmönnum og svaraði sömu spurningu brosandi: „Daninn og Hamarinn“. Flestir vita að þar er um að ræða þá Peter Heine Nielsen, sem var reyndar í liði Anands fyrir ekki svo löngu síðan, en skipti um lið þegar ljóst var að Magnús væri áskorandi Anands í Chennai fyrir ári síðan, og norðmanninn Jon Ludwig Hammer.

Fyrsta skákin

Enginn glerveggur aðskilur keppendur frá áhorfendum líkt og venja er orðin.

Enginn glerveggur aðskilur keppendur frá áhorfendum líkt og venja er/var orðin.

Dregið var um liti á setningarathöfn þann 7. nóvember s.l.. Anand fékk hvítt og stýrði því hvítu mönnunum í fyrstu skákinni eðli málsins skv..

Upp kom Grönfeld vörn með 5. Bd2. Anand hóf taflið af öryggi og hafði frumkvæðið en Magnúsi tókst fljótlega að jafna taflið og var jafnvel með örlítið betra á kafla, eða þar til þeir áttu aðeins hrók og drottingu hvor. Glögglega kom í ljós hversu óöruggur Anand er gegn Magnúsi, því hann lék ónákvæmt og átti í vök að verjast eftir að tímamörkunum (40 leikjum) var náð.

Önnur skákin

Carlsen mætti grimmur til leiks

Carlsen mætti ákveðinn til leiks og muldi niður varnir Anands

Strax dró til tíðinda í annarri skákinni, en þá gerði Maggi sér lítið fyrir og vann eftir grófan afleik Anands sem reyndar var í talsverðu tímahraki. Svo virðist sem Anand geti alls ekki teflt stöður þar sem aðeins hrókur og drottning eru eftir á borðinu því hann tapaði slíkri stöðu í 6. skákinni í Chennai, var nálægt tapi í fyrstu skákinni í Sotsí og tapaði svo þeirri annarri. Ljóst er að aðstoðarmenn Anands verða á yfirvinnu það sem eftir lifir einvígisins við að útskýra fyrir honum fræðin í slíkum stöðum.

Magnús hefði mátt leika 20. Bh6! og verið með fjögur peð fyrir mann eftir þvingaða leikjaröð, en hann taldi það óþarfi, 20. h4 (sem hann lék eftir stutta umhugsun) væri allt eins góður en í honum fælist engin áhætta. Anand lék reyndar vondum leik í framhaldinu 20..Bxf5 ?! og átti varla séns eftir það.

Staðan 1,5 – 0,5 fyrir Magga.

 

Þriðja skákin

"gefið"

„gefið“

Líkt og tæpt var á í upphafi, hafði Anand ekki unnið Magnús í kappskák síðan þann 10.10.10 – Þriðja skákin fór fram þann 11.11.14 og því 49 mánuðir og dagur að auki síðan.

Fyrr í sumar var Anand gjarnan kallaður „Indverska hraðlestin“ og það ekki að ástæðulausu því hann vann öruggan sigur á Meistaramótinu í Bilbao í sepember og er því í mun betra formi en fyrir síðustu viðureign

þeirra félaga í Chennai; þá tók hann sér einmitt 8 mánaða skákfrí fyrir einvígið sem skilaði ekki sérstaklega góðum árangri og sú tilraun var ekki endurtekin.

Anand hafði hvítt í þriðju skákinni og fylgdu þeir skákinni Aronian-Adams frá árinu 2013. Anand hafði þó ekki í hyggju að fylgja henni til enda, því hún endaði með jafntefli. Þess í stað hafði hann fundið mun sterkara framhald en Aronian og vann skákina mjög örugglega og nánast án þess að hugsa yfir borðinu. Framúrskarandi undirbúningur hjá liði Anands! Magnús var að vonum afar vonsvikinn eftir skákina og líklegt er að daninn og hamarinn fái lítinn svefn næstu nætur eða þar til þeir finna svar við undirbúningi Anands fyrir skák 5, en þá verður Maggi næst með svart.

Magnús fær hvítt í fjórðu skákinni sem hefst kl. 12 á morgun og ætlar sér vafalaust að stöðva hraðlestina áður en hún æðir af stað af fullum krafti.

Facebook athugasemdir