Hvatvísi á hvatskákmóti

Skák- og listasmiðjan Gallerý Skák stendur fyrir „hvatskákmótum“ alla fimmtudaga í Skákmiðstöð TR, Faxafeni 12.

Hin vikulegu Gallerýskákkvöld eru öllum opin og ætluð brennheitum ástríðuskákmönnum á öllum aldri, í æfinga-  og keppnisskyni – óháð félagsaðild.  Í Gallerý Skák er teflt af list og fyrir fegurðina,  keppendum  og áhorfendum  til yndisauka undir fororðinu “Sjáumst og kljáumst” og Kaissu gyðju skáklistarinnar til dýrðar.

Forstöðumenn Gallerý Skákar eru þeir Einar S. Einarsson og Guðfinnur R. Kjartansson, skákforkólfar.

Þeir báðir stunda skáklistina af miklum krafti og taka m.a. þátt í starfsemi Æsa, Riddarans og Gallerý Skákar sem lesendur geta glöggvað sig á hér.

En það er sá fyrrnefndi sem á sviðið að þessu sinni því 6. nóvember s.l. var einn þessara fimmtudaga sem menn sáust og kljáðust. Einar stýrði hvítu mönnunum af mikilli útsjónasemi í viðureign við meistara Stefán Bergsson og fórnaði hverjum manninum á fætur öðrum, allt þar til svartur gaf og gat ekki annað.

Fléttan er glæsileg – gjöriði svo vel!

Facebook athugasemdir