HT-Vinaskákmót í Vin á mánudaginn

Vinaskákfélagið og Hrókurinn bjóða til HT- Vinaskákmóts í Vin, Hverfisgötu 47, nk. mánudag klukkan 13. Tefldar verða sex umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma. Heiðursgestur mótsins er Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra.

Í leikhléi verður boðið upp á veglegar veitingar og vígt nýtt vöfflujárn sem Heimilistæki gefa í Vin. Er vöfflujárnið sömu gerðar og notað er í Karphúsinu til að fagna kjarasamningum!

Hróksmenn hafa staðið fyrir skáklífi í Vin, batasetri Rauða krossins, síðan árið 2003 og þar starfar hið fjörmikla Vinaskákfélag, sem m.a. tekur þátt í Íslandsmóti skákfélaga og hefur náð alla leið í efstu deild. Vinaskákfélagið hefur átt mikinn þátt í að auðga líf margra einstaklinga, rjúfa félagslega einangrun og auka lífsgæði.

Fastar æfingar eru í Vin á mánudögum kl. 13 en þar er teflt flesta daga. Allir eru hjartanlega velkomnir á æfingar og mót Hróksins og Vinaskákfélagsins.

Facebook athugasemdir