Guðlaugur Gauti Þorgilsson rekstrarstjóri Bónuss, Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri og Hrafn Jökulsson forseti Hróksins.

Hrókurinn þakkar Bónus: Hafa stutt starfið á Íslandi og Grænlandi frá upphafi

2

Hrafn og Guðlaugur Gauti vígja taflsett sem Hrókurinn færði Bónus-mönnum

Á mánudag heimsóttu liðsmenn Hróksins höfuðstöðvar Bónus, með örlítinn þakklætisvott fyrir ómetanlegan stuðning við starf félagsins gegnum árin. Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri og Guðlaugur Gauti Þorgilsson rekstrarstjóri veittu viðtöku innrömmuðu þakkarskjali, ríkulega myndskreyttu, og auðvitað fylgdi taflsett með, sem var samstundis tekið í notkun.

Liðsmenn Hróksins undirbúa nú fimmtu ferðina til Grænlands á árinu, og tvær til viðbótar eru á teikniborðinu áður en árið er úti. Samhliða hefur fatasöfnun Hróksins í þágu barna og ungmenna á Grænlandi haldið áfram af fullum krafti, og á hinum íslenska heimavelli láta Hróksmenn ekki deigan síga. Þeir standa fyrir líflegu starfi í þágu fólks með geðraskanir, heimsækja Barnaspítala Hringsins vikulega, og efna reglulega til viðburða fyrir skákáhugamenn á öllum aldri.

Hrafn Jökulsson hjá Hróknum segir ótrúlega mikilvægt að jafn öflugt fyrirtæki sýni stuðning og samfélagslega ábyrgð í verki.

Bónus hefur árum saman staðið eins og klettur með Hróksmönnum við að útbreiða fagnaðarerindið, jafnt á Íslandi og Grænlandi. Með stuðningi Bónuss var okkur kleift að heimsækja hvern einasta grunnskóla á Íslandi, og efna til fjölda viðburða fyrir fólk á öllum aldri og úr öllum áttum. Við höfum líka margsinnis farið klyfjaðir af gjöfum frá Bónus til barnanna á Grænlandi. Þannig hafa öll börn í Ittoqqortoormiit, afskekktasta þorpi Grænlands, árum saman fengið páskaegg frá Bónus. Það var líka yndislegt að færa börnunum í Upernavik, sem kallaður er gleymdi bærinn á Grænlandi, jóladagatöl frá Bónus. Svona mætti áfram telja, og við erum vinum okkar í Bónus hjartanlega þakklát og vildum sýna örlítinn þakklætisvott.

 

Facebook athugasemdir