Hrókurinn á ferð og flugi um landið

Hrókurinn er þessa dagana á ferð og flugi, og heimsótti í síðustu viku grunnskóla í Borgarnesi, Siglufirði, Dalvík, Hörgársveit, Grenivík, Akureyri og Eyjafjarðarsveit. Hrafn Jökulsson byrjaði á því að segja frá Grænlandi í máli og myndum og er óhætt að segja að áhugi barnanna á þessu næsta nágrannalandi okkar hafi verið ósvikinn. Síðan tóku við fjöltefli, og tefldi Hrafn alls við á fimmta hundrað barna í þessum leiðangri, sem heppnaðist afar vel.

Óhætt er að segja að gleðin hafi verið í fyrirrúmi, eins og fram kemur í færslu Sigurðar Arnarsonar, á Facebook-síðu íslenskra skákmanna. Hann skrifar:

Í dag hitti ég unga stúlku úr Hrafnagilsskóla. Hún sagði mér stolt frá því að hún hefði unnið Hrafn Jökulsson í fjöltefli. Það vakti undrun mína því þessari ágætu stelpu er margt betur til lista lagt en að tefla skák. Ég hældi henni að sjálfsögðu fyrir afrekið og spurði nánar út í skákina. Kom þá upp úr dúrnum að um svokallaða ,,töfraskák“ var að ræða. Það fyrirbæri þekkti ég ekki og vinkona mín tók að sér að kynna hana fyrir mér. Hún fer þannig fram að þegar Hrafn átti mát í einum þá snéri hann borðinu við og verkefni hnátunnar var þá að finna mátið. Það tókst og þar með vann hún og var mjög ánægð með árangurinn!

Takk, Hrafn, fyrir að gleðja ungmennin og takk fyrir að vekja áhuga á skák.

Í vikunni liggur leið Hróksins um Suðurland, Suðurnes og Vesturland.

Facebook athugasemdir