Hróksliðar heimsækja grunnskólana

Liðsmenn Hróksins heimsóttu Rimaskóla í Grafarvogi í vikunni, sem og Flóaskóla í Flóahreppi. Í Rimaskóla tefldu hvorki fleiri né hundrað og fimmtíu börn við þá Hrafn Jökulsson og Mána Hrafnsson. Í Flóaskóla tefldu 40 börn við Hrafn.

Áður en slegið er upp fjöltefli segja Hróksliðar í máli og myndum frá Grænlandi, næstu nágrönnum Íslendinga, en þar hafa Hróksmenn starfað að útbreiðslu skáklistarinnar í 15 ár. Börnin eru mjög áhugasöm um Grænland, en af þeim næstum 200 börnum sem spjölluðu við Hróksmenn í vikunni hafði aðeins eitt komið þangað í heimsókn. Öll fá börnin afmælisblað Hróksins að gjöf, en þar segir frá starfi félagsins í tuttugu ár.

Skólaheimsóknir Hróksins eru liður í hátíðarhöldum, vegna 20 ára afmælis félagsins nú í haust. Ætlunin er að heimsækja öll sveitarfélög á Íslandi, 72 talsins, jafnframt því að slá upp hátíðum á Grænlandi, safna jólagjöfum fyrir grænlensk börn og sinna öðru grasrótarstarfi félagsins.

Myndirnar eru frá heimsóknum Hróksliða í Rimaskóla og Flóaskóla.

Facebook athugasemdir