Hneykslismál í Búlgaríu – Silvio Danailov sakaður um kosningasvindl og fjárdrátt

Silvio Danailov

Silvio Danailov er m.a. fv. forseti Evrópska Skáksambandsins og umboðsmaður Veselin Topalovs

Skák var til umfjöllunar í búlgörskum sjónvarpsþætti s.l. mánudag, 8. desember. Tilefni umfjöllunarinnar var þó ekki jákvætt í þetta skiptið, því fjallað var um spillingu og kosningasvindl í komandi forsetakosningum hjá Búlgarska Skáksambandinu.

Sjónvarpsþátturinn sem nefnist Gospodari na Efira, sem útleggst sem  „Meistararnir“ (The Masters) á því ylhýra, fjallaði sem áður segir um spillingu hjá Búlgarska Skáksambandinu.

Í innslagi sem nefndist „Hvernig maður verður forseti skáksambands með ólöglegum leikjum“, birti rannsóknarblaðamaðurinn Vladi Vassilev upptöku úr falinni myndavél af fundi sínum með skáksambandsmönnum sem varpar ljósi á ætlaða spillingu.

Orlin Nikolov, formaður Botvinnik skákfélagsins setti sig í samband við blaðamanninn Vladi Vassilev eftir að framkvæmdastjóri Búlgarska skáksambandsins hafði samband við hann og lofaði honum nýjum skáksettum og  skákstjórastöðum á vegum sambandsins ef hann yrði svo vænn að kjósa hr. Danailov í komandi kosningu þann 13. desember.

Umfjöllunin hefst eftir 12 mínútur og 35 sekúndur.

Myndbandið er vitaskuld á búlgörsku, en að neðan er tæpt á því helsta sem fram fer.

Vladi Vassilev [blaðamaður]: Hvað get ég gert fyrir þig og hvers vegna hafðir þú samband við okkur?

Orlin Nikolov [formaður Botvinnik]: Ég leita til ykkar vegna spillingar starfsmanns hjá Búlgarska Skáksambandinu. Um er að ræða framkvæmdastjórann hr. Nikolay Velchev, sem er í forsvari fyrir framboð [Danailovs] í komandi kosningum. Hann misnotar aðstöðu sína til að tryggja sér fylgi. Hann bauð mér greiðslu [skásett o.fl.] fyrir að kjósa framboð hans á komandi aðalfundi.

Vladi Vassilev: Þannig að þú hittir hann þar sem hann lofaði þessu?

Orlin Nikolov: Hann lofaði mér skákstjórastöðu í komandi landsmóti og hann lofaði einnig skáksettum fyrir félagið mitt, svo það geti haldið meistaramót.

Vladi Vassilev: Hvað vildi hann fá í staðinn?

Orlin Nikolov: Hann vildi að við myndum kjósa framboðið hans á komandi aðalfundi Skáksambandsins.

Vladi Vassilev: Hvenær er aðalfundurinn?

Orlin Nikolov: 13. desember.

Að svo mæltu hringir Orlin Nikolov, formaður Botvinnik skákfélagsins, í Velchev, framkvæmdastjóra Skáksambansins til að ganga frá samningi um töfl fyrir atkvæði. Orlin fær fimm taflsett til að halda barnaskákmót. Aðeins fimm útskýrir Velchev í símann því „við getum ekki látið þig hafa mörg, því við höfum gefið svo mörg í sama tilgangi..“ Því næst fer Orlin og sækir töflin með aðstoð „Meistarana“, sem fylgjast með öllu sem fram fer.

Því næst fer Orlin Nikolov á skrifstofu Skáksambandsins og hefur meðferðis falda myndavél.

Orlin Nikolov: Þakka þér fyrir, ég fékk töflin.

Nikolay Velchev: Ertu sáttur?

Orlin Nikolov: Að sjálfsögðu, þetta eru mjög flott töfl!… En ég vildi vita hvort Silvio Danailov sé einn í framboði?

Nikolay Velchev: Já, enn sem komið er, er hann einn í framboði ásamt hr. Ivan Genov, stjórnarformanni Atomic Central „Kozlodui“, varaforsetanum hr. Nedkov og mér að sjálfsögðu, ég er framkvæmdastjórinn. Við erum saman í framboði. Ef þú kýst ekki Silvio, þá ertu ekki að kjósa mig. Við erum allir í pakkanum.. Stefan Sergiev ætlaði að bjóða sig fram gegn Silvio, hann er enn óákveðinn. Kannski að Kurtenkov bjóði sig fram.. Hver sem það verður, þá verður það einhver sem hefur ekkert gert [„done no work“].

Orlin Nikolov: Ég skil. Ég vildi líka vita, ef ég kýs ekki Silvio Danailov, þetta sem við ræddum um að ég verði skákdómari…

Nikolay Velchev: … Þá verður ekki af því. En ég hef þegar unnið í málinu. Ég reyni að ganga frá öllu fyrir þig fyrir kosningarnar. Við vottum að þú sért skákdómari og hafir klárað það sem til þarf, svo greiðum við annað hvort hótel fyrir þig eða laun. Annað hvort, ég get ekki bæði.

Orlin Nikolov: Ekkert mál, ég sé að þetta er fjárfesting til framtíðar. Nú þarf ég að undirbúa skákmótin, þess vegna þurfti ég taflsettin.

Nikolay Velchev: Það sem er mikilvægt er að kjósa liðið hans Silvio. Þér kann að líka illa við hann því hann er ekki diplómat eins og ég.

Fleiri ásakanir um spillingu

Nú þegar forsetakosningar hjá Búlgarska eru handan við hornið, hrannast upp ásakanir um spillingu á hendur Silvio Danailov og hans mönnum. Ástæður þeirra eru ekki endilega pólitískar, enda er Silvio einn í framboði.

Stærsta vefdagblað Búlgaríu, Blitz.bg greinir frá því að kæra hafi verið send Íþróttamálaráðuneyti Búlgaríu vegna misnotkunar á fjármunum sambandsins. Um er að ræða 450.000 evra styrk til sambandsins vegna m.a. Evrópumóts kvenna sem fram fór í Plovdiv í sumar og skákmóta í Golden Sands og Albena.

Silvio Danailov tjáði sig um kæruna:

Þetta eru ekki alvarlegar ásakanir. Mótin fóru fram, ég skil ekki hvert vandamálið er. Maðurinn sem sendi kæruna, Stefan Sergiev, hefur undanfarin 4 ár fengið allt að 50.000 evrur í styrk frá okkur vegna bókaútgáfu. En ég hef ekkert slæmt að segja um þann mann.

Nánar verður fjallað um ætlaðan fjárdrátt í næstu grein.

Facebook athugasemdir