Hjörvar Steinn Grétarsson stórmeistari þurfti að hafa sig allan við í fjölteflinu í Salaskóla.

Hjörvar Steinn Grétarsson og Nigel Short mætast í MótX-einvíginu í Kópavogi

— MótX gefur grunnskólum Kópavogs 100 taflsett.

Viggó Einar Hilmarssonar fjármálastjóri MótX afhendir Ármanni Kr. Ólafssyni 100 taflsett til grunnskóla bæjarins.

Viggó Einar Hilmarssonar fjármálastjóri MótX afhendir Ármanni Kr. Ólafssyni 100 taflsett til grunnskóla bæjarins.

Hjörvar Steinn Grétarsson, yngsti stórmeistari Íslands, og Nigel Short, sem teflt hefur um heimsmeistaratitilinn, mun mætast í MótX-einvíginu í Kópavogi í maí 2016. Skákfélagið Hrókurinn skipuleggur viðburðinn og af þessu tilefni færði MótX grunnskólum Kópavogs 100 taflsett að gjöf við athöfn í Salaskóla á þriðjudag. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri veitti taflsettunum viðtöku og síðan tefldi Hjörvar Steinn fjöltefli við nemendur Salaskóla.

Hafsteinn Karlsson skólastjóri bauð gesti og nemendur velkomna við athöfnina í Salaskóla, en þar hefur skáklífið vaxið og dafnað frá stofnun skólans árið 2003. Hrafn Jökulsson forseti Hróksins flutti ávarp og sagði að skáklífið í Kópavogi væri nú í miklum blóma.

Mikill skákáhugi er í Salaskóla og gleðin var allsráðandi í fjölteflinu við Hjörvar Stein.

Mikill skákáhugi er í Salaskóla og gleðin var allsráðandi í fjölteflinu við Hjörvar Stein.

Á þriðja hundrað börn tóku á dögunum þátt í sveitakeppni grunnskólanna í Kópavogi og skákdeild Breiðabliks starfar af miklum þrótti. Hann sagði mikið fagnaðarefni að MótX skyldi veita Hjörvari Steini tækifæri til að tefla við goðsögnina Nigel Short, en þeir Hjörvar munu tefla sex atskákir og verður samhliða efnt til mikillar skákhátíðar í skólum Kópavogs.

Fulltrúar MótX hf. við athöfnina voru þeir Vignir Steinþór Halldórsson stjórnarformaður, Svanur Karl Grétarsson framkvæmdastjóri og Viggó Einar Hilmarsson fjármálastjóri. Ármann bæjarstjóri þakkaði MótX fyrir rausnarlega gjöf til skólanna, og sagði mikið fagnaðarefni að einvígi Hjörvars og Shorts færi fram í Kópavogi, enda mikil skákvakning meðal ungu kynslóðarinnar í bænum.

Nigel Short. Goðsögn í skákheiminum og hefur teflt um heimsmeistaratitilinn.

Nigel Short. Goðsögn í skákheiminum og hefur teflt um heimsmeistaratitilinn.

Nigel Short (f. 1965) varð stórmeistari 19 ára að aldri og hefur náð þriðja sæti á stigalista skákmanna í heiminum. Árið 1993 varð hann fyrsti Englendingurinn til að tefla um heimsmeistaratitilinn. Hann beið lægri hlut fyrir Gary Kasparov í einvígi, en hefur allar götur síðan verið meðal þeirra bestu. Hann nýtur mikillar virðingar í skákheiminum og er mjög vinsæll greinahöfundur, enda hefur hann heimsótt 108 lönd og er hvarvetna mikill aufúsugestur.

Hjörvar Steinn Grétarsson fæddist árið sem Short tefldi um heimsmeistaratitilinn — 1993 — og vakti kornungur athygli fyrir mikla hæfileika. Hann varð stórmeistari 2013 og á nýafstöðnu Evrópumóti landsliða í Laugardalshöll náði hann bestum árangri íslensku landsliðsmannanna. Hjörvar tapaði ekki skák á mótinu og árangur hans jafngilti 2670 skákstigum.

Í tengslum við MótX-einvígi Hjörvars Steins og Nigel Shorts verður efnt til ýmissa viðburða á vormánuðum, svo Kópavogur mun iða af skáklífi.

Facebook athugasemdir