Hetjurnar frá Manila! (Og skákkonan sem hefur náð enn betri árangri)

okladka_ENG_webres

Íslendingar voru fyrst með á ólympíuskákmóti í Hamborg árið 1930. Nú stendur 41. ólympíuskákmótið yfir í Tromsö í Noregi.

Íslendingar mættu fyrst til leiks á Ólympíuskákmótinu í Hamborg árið 1930. Alls hafa Íslendingar teflt á 36 af 41 ólympíumóti, að mótinu í Tromsö meðtöldu. Skákirnar eru því orðnar býsna margar, eða 2184 til að allrar nákvæmni sé gætt. Hrókurinn rýndi í tölfræði íslenska landsliðsins á ólympíuskákmótum og skoðaði sérstaklega árangur þeirra sem nú sitja að tafli í Tromsö…

Íslendingar hafa aldrei lent í verðlaunasæti á ólympíuskákmóti, þótt okkar menn hafi að vísu unnið glæsilegan sigur í B-keppninni í Buenos Aires 1939.

Besti árangur Íslands var 5. sætið 1986. Jón L. Árnason, einn liðsmanna í þessari frægu sveit, skrifaði bráðskemmtilega bók um mótið, Skákstríð við Persaflóa.

Um þetta leyti var íslenska landsliðið sannarlega í fremstu röð, enda gerðu fjórmenningarnir garðinn hvað frægastan á þeim árum: Helgi Ólafsson, Jóhann Hjartarson, Jón L. og Margeir Pétursson. Þeir voru kjarninn í liðinu, sem náði 8. sæti 1990 og 6. sæti 1992.

679545

Hannes H. Stefánsson. Sló í gegn sem varamaður í Manila, dregur nú vagninn í Tromsö.

Vert er að staldra við mótið 1992 sem fram fór á Filippseyjum. Þetta var fyrsta mótið sem haldið var eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur. Enda sást það við verðlaunaafhendinguna: Rússar unnu gullið, Úsbekar silfrið og Armenar gullið.

Skákheimurinn hafði gjörbreyst, eins og veröldin öll, á örskömmum tíma. Allt í einu spruttu fram mörg firnasterk skáklönd. Frá hinum nýdauðu Sovétríkjum mættu 12 ný landslið.

Árangur íslenska liðsins, 6. sætið, er því sérlega glæsilegur.

Það vill svo skemmtilega til að fjórir af liðsmönnum Íslands í liðinu síðan 1992 eru í íslenska landsliðinu sem teflir í Tromsö!

Thorhallsson-Throstur

Þröstur Þórhallsson. Fínt vinningshlutfall undir fána Íslands.

Hannes Hlífar Stefánsson, þá tvítugur, tefldi í fyrsta sinn á ólympíumóti og stóð sig frábærlega, vann 5 skákir, gerði 4 jafntefli og tapaði engri. Hannes er núna að tefla á sínu tólfta ólympíuskákmóti. Fram að mótinu í Tromsö hafði hann teflt 121 skák undir fána Íslands á ólympíuskákmótum: 44 sigrar, 52 jafntefli, 25 töp. 57,9% vinningshlutfall.

Þröstur Þórhallsson, 23 ára, fór líka á kostum í Manila. Og hann hefur teflt á næstum öllum ólympíuskákmótum síðan, oftast með prýðilegum árangri. Þröstur hefur teflt 86 skákir á 10 mótum: 36 sigrar, 31 jafntefli, 19 töp. 59,9% vinningshlutfall.

helgiolafsson

Helgi Ólafsson. Er að tefla á sínu fimmtánda ólympíuskákmóti. Lykilmaður í Manila — og Tromsö.

Helgi Ólafsson stórmeistari tefldi á 3. borði á mótinu á Filippseyjum. Hann er varamaður í Tromsö, þrátt fyrir að vera stigahæstur allra í liðinu, en teflir sem betur fer jafnmikið og aðrir liðsmenn. Helgi hefur teflt á hvorki meira né minna en 15 ólympíuskákmótum, alls 152 skákir: 44 sigrar, 72 jafntefli, 36 töp. 52,6% vinningshlutfall.

Jón L. Árnason stóð vaktina á 4. borði í Manila. Hann er nú einvaldur landsliðsins (tók við af Helga nú í vor). Jón tefldi á 9 ólympíuskákmótum, alls 103 skákir: 36 sigrar, 50 jafntefli, 17 töp: 59,2% vinningshlutfall.

Það vantar bara tvo úr hópnum frá Manila til Tromsö: Jóhann Hjartarson og Margeir Pétursson.

gummi__

Guðmundur Kjartansson. Íslandsmeistarinn er á sínu fyrsta ólympíuskákmóti.

En í þeirra stað höfum við Hjörvar Stein Grétarsson og Guðmund Kjartansson.

Guðmundur er að tefla í fyrsta sinn á ólympíuskákmóti og var settur beint á 3. borð (fjórir skipa hvert lið, auk varamanns, og er raðað eftir styrkleika).

Hjörvar Steinn er hinsvegar að tefla á sínu þriðja ólympíuskákmóti. Og gaman að segja frá því að Hjörvar Steinn er með hæsta vinningshlutfallið í landsliðshópnum. Alls tefldi hann 17 skákir á fyrstu tveimur mótunum: 9 sigrar, 3 jafntefli, 5 töp. 61,8% vinningshlutfall.

En lítum nú aðeins betur á heildarárangur Íslands frá upphafi.

Á 35 ólympíuskákmótum tefldu Íslendingar  2184 skákir.

721 sigur.

820 jafntefli.

643 töp.

51,8% vinningshlutfall.

Alls eru þetta 546 viðureignir — eða landsleikir öllu heldur.
226 sigrar.

110 jafntefli.

210 töp.

lenkaa

Lenka er langbest. Fremsta skákkona Íslands. Hefur líka náð frábærum árangri við skákkennslu og þjálfun.

Við erum sem sagt í örlitlum plús.

En við eigum ennþá eftir að upplýsa hver af íslensku keppendunum í Tromsö hefur náð bestum árangri á ólympíuskákmótum…

Það er engin önnur en Lenka Ptacnikova, sem leiðir lið Íslands enda okkar langbesta skákkona.

Lenka er að tefla í 11. skipti á ólympíuskákmóti. Á árunum 1994 til 2002 tefldi hún undir fána Tékklands. Það var skáklífinu á Íslandi til mikillar gæfu þegar Lenka flutti til landsins og varð íslenskur ríkisborgari. Hún er ekki bara langbesta skákkona Íslands, hún hefur líka náð frábærum árangri við þjálfun og skákkennslu.

Alls hefur Lenka teflt 103 skákir á ólympíuskákmótum: 48 sigrar, 38 jafntefli, 17 töp. 65% vinningshlutfall.

Þannig að Lenka slær út allar hetjurnar frá Manila!

 

Sjá nánar um tölfræði einstakra landsliðsmanna:

 

Facebook athugasemdir