Helgi Ólafsson sigraði á glæsilegu Afmælismóti Einars Ben — Skáksögufélag stofnað

EinarBen-41

Kristján Stefánsson og Nansý Davíðsdóttir

Helgi Ólafsson sigraði á Afmælismóti Einars Benediktssonar sem haldið var á veitingahúsinu Einari Ben við Ingólfstorg, laugardaginn 1. nóvember. Helgi hlaut 6 vinninga af 7 mögulegum. Í 2.-3. sæti urðu Jóhann Hjartarson og Hjörvar Steinn Grétarsson, en alls voru keppendur 39. Í mótslok var Söguskákfélagið stofnað, en því er ætlað að stuðla að rannsóknum og skráningu á íslenskri skáksögu, sem spannar heilt árþúsund.

Afmælismót Einars Benediktssonar var haldið í tilefni af því að föstudaginn 31. október voru 150 ár frá fæðingu skáldsins, sem setti svo sterkan svip á samtíð sína. Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur, sem flutti ávarp við setningu mótsins sagði að Einar hefði verið ,,hið síðasta í röð  stórskálda 19. aldar, Hann var líka fyrsta þjóðskáld 20. aldarinnar en um leið hið síðasta. Hann orti ljóð sem rúmuðu allt.“

FRÁ AFMÆLISMÓT EINARA BEN - ESE 1.11.2014 16-58-06

Þórgnýr Thoroddsen formaður ÍTR ásamt verðlaunahöfunum Jóhanni, Helga og Hjörvari Steini.

Einar var einn af stofnendum Taflfélags Reykjavíkur um aldamótin 1900 og skák var ein hans helsta skemmtun, eins og fram kemur í endurminningum konu hans, Valgerðar Benediktsson. Einar tefldi að staðaldri við bestu skákmenn Íslands, og notaði einatt líkingamál úr skákinni í skáldskap sínum.

Einar Benediktsson sendiherra, sonarsonur þjóðskáldsins, lék fyrsta leikinn fyrir Friðrik Ólafsson sem hafði hvítt gegn hinum 11 ára gamla Mykhaylo Kravchuk, sem er afar efnilegur. Katrín Einarsdóttir, langafabarn skáldsins, lék fyrsta leikinn fyrir Mykhaylo.

FRÁ AFMÆLISMÓT EINARA BEN - ESE 1.11.2014 14-48-21

Lenka var ein um að sigra Helga Ólafsson á mótinu. Hann fékk 6 vinninga af 7 mögulegum.

Jóhann Hjartarson byrjaði af miklum krafti og lagði Vigni Vatnar Stefánsson, Róbert Lagerman, Davíð Kjartansson og Hjörvar Stein Grétarsson í fyrstu fjórum umferðunum. Í 5. umferð gerði Jóhann jafntefli við Björn Þorfinnsson og tapaði fyrir Braga bróður hans í næstsíðustu umferð. Bragi var í toppbaráttunni allan tímann en tapaði fyrir Helga í magnaðri úrslitaskák í síðustu umferð.

Helgi Ólafsson hóf mótið með sigri á hinum efnilega Gauta Páli Jónssyni, en tapaði í 2. umferð fyrir Lenku Ptacnikova, bestu skákkonu Íslands. Helgi beit í skjaldarrendur, vann 5 síðustu skákirnar og sigraði á mótinu.

Verðlaunahafar fengu m.a. gjafabréf frá veitingahúsinu Einar Ben, sem stóð að mótinu ásamt Taflfélagi Reykjavíkur og Hróknum.

FRÁ AFMÆLISMÓT EINARA BEN - ESE 1.11.2014 16-03-55

Björn Jónsson formaður TR og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Við lokaathöfn mótsins var tilkynnt um stofnun Skáksögufélagsins, en því er haldað að stuðla að rannsóknum og fræðslu, sem varða skáksögu Íslands að fornu og nýju. Þá mun félagið beita sér fyrir varðveislju hverskonar skákminja og að saga mestu skákmeistara Íslands verði skráð. Skáksögufélagið mun ennfremur gangast fyrir og styðja útgáfu, málþing og sýningar.

Einar S. Einarsson fv.  forstjóri, sem gegnt hefur ótal mikilvægum trúnaðarstörfum fyrir skákhreyfinguna, var kjörinn fyrsti forseti Skáksögufélagsins. Aðrir í stjórn eru Jón Þ. Þór sagnfræðingur, Róbert Lagerman forseti Vinaskákfélagsins og stjórnarmaður í SÍ, Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur og fv. forseti SÍ og  Jón Torfason íslenskufræðingur og skjalavörður.

FRÁ AFMÆLISMÓT EINARA BEN - ESE 1.11.2014 23-16-58

 

Facebook athugasemdir