Magnus Carlsen

Heimsmeistarar í skák: Steinitz, Lasker, Capablanca, Fischer, Carlsen og allir hinir!

Steinitz

Wilhelm Steinitz

Wilhelm Steinitz (17. maí 1836 til 12. ágúst 1900) varð fyrsti heimsmeistarinn í skák, þegar hann lagði snillinginn og ævintýramanninn Johannes Zukertort í einvígi árið 1884. Steinitz lagði grunn að nýjum skilningi á skák, sem byggður var á stöðubaráttu, en fram að hans dögum hafði taktísk sóknartaflmennska verið ríkjandi. Steinitz átti við andlega vanheilsu að stríða síðustu ár ævinnar og dó öreigi.

Lasker

Emanuel Lasker

Emanuel Lasker (24. desember 1868  til 11. janúar 1941) var annar heimsmeistarinn. Hann var stærðfræðingur og heimspekingur, sem ríkt hefur lengst allra sem heimsmeistari, eða 27 ár, frá 1894 til 1921. Lasker bar sigurorð af Steinitz í einvígi árið 1894 og var lengi síðan óskoraður skákmeistari heimsins, stóð af sér allar áskoranir og náði frábærum árangri á skákmótum. Lasker hélt áfram að tefla eftir að hann tapaði krúnunni, og náði stórgóðum árangri fram á efstu ár.

capablanca09b-ew

José Raúl Capablanca

José Raúl Capablanca (19. nóvember 1888 til 8. mars 1942) varð þriðji heimsmeistarinn þegar hann sigraði Lasker í Havana 1921. Þar tapaði Capablanca ekki skák, sem er einkennandi fyrir feril hans: Mörg ár gátu liðið milli tapskáka hjá meistaranum sem lærði mannganginn 3ja ára. Capablanca er líklega mesta náttúrutalent skáksögunnar. Um hann sagði Lasker: ,,Ég hef kynnst mörgum skákmönnum, en aðeins einum skáksnillingi: Capablanca.“ Þeir Lasker dóu á sama spítala í New York, með rúmlega árs millibili.

Alekhine caric

Alexander Alekhine

Alexander Alekhine (31. október til 24. mars 1946) varð fjórði heimsmeistarinn, þegar hann lagði Capablanca í Buenos Aires 1927. Alekhine var af auðugum rússneskum ættum og sýndi snemma mikla hæfileika. Um tvítugsaldur var hann kominn í hóp fremstu meistara heims. Alekhine var fyrsti heimsmeistarinn (í nokkurri íþrótt) sem kom í heimsókn til Íslands, það var 1931. Hann tapaði titlinum til Max Euwe 1935, en endurheimti hann tveimur árum síðar. Alekhine var fjórgiftur, saup nokkuð drjúgt af vodka, var kattavinur og talsvert umdeildur. Hann dó við dularfullar kringumstæður á hótelherbergi í Portúgal, eini heimsmeistarinn sem hefur dáið á veldisstóli.

max euwe

Max Euwe

Max Euwe (20. maí 1901 til 26. nóvember 1981) vann titilinn óvænt af Alekhine árið 1935 og varð þannig fimmti heimsmeistarinn. Þessi hógværi heiðursmaður frá Hollandi hefur stundum verið kallaður fyrsti ,,slysaheimsmeistarinn“ en Euwe var óumdeilanlega einn af bestu skákmönnum heims á sínum tíma, og vann verðskuldaðan sigur í einvíginu gegn Alekhine. Tveimur árum síðar náði rússneski snillingurinn titlinum aftur, en Hollendingar höfðu eignast sinn fyrsta og eina heimsmeistara. Síðar varð Euwe forseti FIDE, alþjóðaskáksambandsins, og lykilmaður í ,,Einvígi aldarinnar“ í Reykjavík 1972.

botvinnik

Mikhail Botvinnik

Mikhail Botvinnik (17. ágúst 1911 til 5. maí 1995) varð heimsmeistari þrisvar sinnum, oftar en nokkur annar. Hann settist í hásætið 1948, tveimur árum eftir dauða Alekhines, og sat þar næstu 15 árin ef frá eru talin stutt skeið þegar Smyslov og Tal tylltu sér í stól heimsmeistara. Botvinnik var einskonar skólastjóri sovéska skákskólans, auk þess frumkvöðull í skákþjálfun og tölvuskák. Botvinnik var einarður kommúnisti og tók fall Sovétríkjanna nærri sér.

smyslov

Vasily Smyslov

Vasily Smyslov (24. mars 1921 til 27. mars 2010) varð heimsmeistari þegar hann lagði Botvinnik 1957 og hélt krúnunni í eitt ár. Smyslov var baritón-söngvari, og ákvað að helga sig skáklistinni eftir misheppnaða áheyrnarprufu hjá Bolshoi-leikflokknum árið 1950. Hann söng iðulega við setningar- og lokahóf skákmóta, og naut þá einatt liðveislu Marks Taimanovs, skákmeistara og píanóleikara. Smyslov hélt skákstyrk sínum fram á efri ár, og var með í baráttunni um heimsmeistaratitilinn fram á daga Kasparovs.

Tal

Mikhail Tal

Mikhail Tal (9. nóvember 1936 til 28. júní 1992) var fæddur í Lettlandi, sem þá tilheyrði Sovétríkjunum. Hann varð áttundi heimsmeistarinn í skák 1960 þegar hann lagði Botvinnik, en tapaði titlinum árið eftir. Tal var (og er) afar vinsæll meðal skákáhugamanna, enda kallaður ,,töframaðurinn frá Riga“ fyrir stórbrotin tilþrif á taflborðinu. Tal tefldi oftsinnis á Íslandi og átti hér marga aðdáendur og vini. Hann er þriðji heimsmeistarinn úr merki sporðdrekans, hinir eru Capablanca og Alekhine.

Tigran Petrosian

Tigran Petrosian

Tigran Petrosian (17. júní 1929 til 13. ágúst 1984) var maðurinn sem loksins náði heimsmeistaratitlinum frá Botvinnik. Það var 1963 og hann hélt titlinum í sex ár, uns hann tapaði fyrir Spassky. Petrosian þótti óhemju traustur skákmaður. Það þótti tíðindum sæta ef hann tapaði skák, en að sama skapi var hann lítt gefinn fyrir flugeldasýningar. Hann var dyggur stuðningsmaður kommúnista í Sovétríkjunum og ekki sérlega heillandi persónuleiki.

spassky

Boris Spassky

Boris Spassky (fæddur 30. janúar) er elsti núlifandi heimsmeistarinn. Hann sigraði Petrosian 1969, en tapaði titlinum í hinu sögufræga einvígi í Reykjavík 1972. Tíundi heimsmeistarinn þótti einstakur listamaður á taflborðinu, og hann vann hug og hjörtu Íslendinga þegar heimsmeistaraeinvígið fór fram. Hann gerðist franskur ríkisborgari eftir einvígið við Fischer, en hefur nú snúið aftur til Rússlands.

fischer

Robert J. Fischer

Robert J. Fischer (9. mars 1943 til 17. janúar 2008) varð heimsmeistari í Reykjavík árið 1972 í ,,Einvígi allra tíma“ þegar hann lagði Boris Spassky. Fischer var undrabarn  í skákinni og mótsagnakennd persóna, sem margir álíta sterkasta skákmann allra tíma. Eftir einvígið við Spassky lét Fischer sig hverfa í 20 ár, dúkkaði þá aftur upp í borgarastyrjöld í Júgóslavíu þar sem hann tefldi nýtt einvígi við Spassky. Fischer eyddi síðustu ævidögunum á Íslandi, eftirlýstur af Bandaríkjastjórn. Hann er jarðsettur í Laugardælakirkjugarði.

karpov

Anatoly Karpov

Anatoly Karpov (fæddur 23. maí 1951) varð heimsmeistari 1975, þegar Bobby Fischer mætti ekki til leiks í boðað heimsmeistaraeinvígi. Um tíu ára skeið bar Karpov ægishjálm yfir aðra skákmenn í heiminum, vann flestöll mót og tapaði varla skák. Hann var grjótharður stuðningsmaður kommúnistaflokks Sovétríkjanna, og aðspurður um áhugamál var svarið einfalt: Frímerki og marxismi. Karpov hefur í seinni tíð beitt sér mjög fyrir útbreiðslu skákíþróttarinnar.

kasparov

Garry Kasparov

Garry Kasparov (fæddur 13. arpíl 1963) er að margra dómi besti skákmaður sögunnar. Hann hratt Karpov úr veldisstóli heimsmeistara árið 1985 og var næstu tuttugu árin á toppnum. Frá 1986-2005 var Kasparov efstur á heimslistanum 225 mánuði af 228. Hann á einnig metið fyrir flesta sigra á alþjóðlegum skákmótum í röð, 15 talsins. Hin seinni ár hefur Kasparov einkum látið til sín taka sem pólitískur umbótamaður, og er harður andstæðingur Pútíns, forseta Rússlands. Kasparov er nú í framboði sem forseti FIDE, úrslit ráðast í Noregi í ágúst 2014.

kramnik

Vladimir Kramnik

Vladimir Kramnik (fæddur 25. júní 1975) skrifaði nafn sitt í sögubækur Caissu, þegar hann lagði Kasparov í einvígi árið 2000. Kramnik tapaði ekki skák í einvíginu, og þurfti að leita aftur til ársins 1921 þegar ríkjandi heimsmeistara tókst ekki að vinna skák. Kramnik er Rússi, búsettur í París, og hefur afar traustan skákstíl. Síðustu árin hefur Kramnik þó nokkuð slakað á, og er kominn niður í 10. sæti heimslistans yfir stigahæstu skákmenn.

anand

Viswanathan Anand

Vishy Anand (fæddur 11. desember 1969) er fyrsti indverski heimsmeistarinn, en á Indlandi er vagga skáklistarinnar. Hann var óumdeildur heimsmeistari 2007-2013, en hefur um árabil verið í allra fremstu röð. Á unga aldri var Anand þekktur fyrir leiftrandi sóknartaflmennsku, sem hefur vikið fyrir skákstíl sem einkennist af djúpum stöðuskilningi. Anand á allan heiður af því að hafa skapað skákvakningu á Indlandi og víðar í Asíu. Þykir einstakt prúðmenni í allri framgöngu.

Magnus Carlsen

Magnus Carlsen

Magnus Carlsen (fæddur 30. nóvember 1990) er norska undrabarnið sem allir þekkja. Hann sigraði Anand í einvígi á Indlandi 2013 og er líklegur til að ríkja á veldisstóli heimsmeistara um ókomin ár. Hann hefur skapað sannkallað skákæði í Noregi, sem áður var algjört þriðja heims land í skákinni. Ólympíumótið í skák 2014 fer fram í Noregi og þar tefla Norðmenn fram þremur skáksveitum!

Facebook athugasemdir