Heimsmeistaramót ungmenna – Mikið af Íslandsvinum

Wei

Wei Yi verður að teljast til alls líklegur!

Nú er lokið sex umferðum af þrettán á Heimsmeistaramóti Ungmenna sem fram fer á Indlandi. Fyrr á árinu fóru fram Heimsmeistaramót í flokkum U18, U16, U14, U12 og U10 ára en mótið á Indlandi er mjög virt og þar er krýndur Heimsmeistari Ungmenna ár hvert.

Helgi Áss Grétarsson hrifsaði þennan titil árið 1994 og með því Stórmeistaratign að auki. Mótin hin síðari ár eru orðin sterk og gríðarlegur fjöldi keppenda ber nú þegar stórmeistaratitilinn. Sigurvegarar þessara móta undanfarin ár hafa heimsótt Reykjavíkurskákmótið og nægir þar að nefna Idani Pouya frá Íran í fyrra og Alexander Ipatov þar á undan en hann teflir nú fyrir Tyrki og mætti okkur einmitt á Ólympíumótinu.

Í raun er magnað þegar rennt er yfir keppendalistann hversu margir hafa iðkað skáklistina á Íslandi og sýnir vel skemmtilega stefnu Reykjavíkurskákmótsins að fá hingað efnilega erlenda keppendur.

Eftir sex umferðir er Íslandsvinurinn Jorge Cori efstur ásamt nokkrum öðrum.

WorldJr_Rnd6

Meðal efstu manna má einnig finna kínverska ungstirnið Wei Yi sem náði sínum lokaáfanga að stórmeistaratitli einmitt á Reykjavíkurskákmótinu árið 2013. Wei Yi á mörg ár eftir í þessu móti ef hann svo kýs en hann er fæddur árið 1999 og keppir því að mestu við mun eldri skákmenn.

Aryan Tari (2450) nýtur liðsinnis Magnúsar Carlsen.

Aryan Tari (2450) nýtur liðsinnis Magnúsar Carlsen.

Hinn indverski Sahaj Grover hefur komið oftar en einu sinni til Íslands og hinn hollenski Robin Van Kampen sló í gegn í fyrra á Reykjavíkuskákmótinu. Hann hefði að öllu jöfnu teflt á Íslandsmóti Skákfélaga en þátttaka hans á þessu móti kom í veg fyrir það. Einnig er Norðmaðurinn Aryan Tari til alls líklegur en hann nýtur liðsinni samlanda síns Magnusar Carlsens samkvæmt nýjustu fréttum.

Neðar í töflunni má finna fleiri indverk ungstirni eins og Narayanan og Aravindh sem báðir hafa teflt í Reykjavík. Meistarinn frá í fyrra Idani Pouya byrjaði á þremur sigurskákum í ár en tapaði svo tveimur skákum í röð og þarf að vinna á seinni part móts til að verja titilinn.

Mótið er 13 umferðir og því nóg eftir. Alls eru keppendur 137 frá 48 löndum. 18 stórmeistarar eru mættir til leiks! Hægt er að fylgjast með á ýmsum stöðum en við bendum á ChessBomb.

Skákir í beinni á ChessBomb (og eldri umferðir)

Facebook athugasemdir