Hveragerði 1946

Heiðraður bréfskákfrömuður sest í helgan stein

Þórhallur B Ólafsson læknir úr Hveragerði er samofinn íslenskri bréfskáksögu. Hann var kjörinn fyrsti formaður Félags íslenskra bréfskákmanna þegar það var stofnað 12. september 1991. Um stofnfundinn er þetta sagt í rituðum heimildum:

Félag íslenskra bréfskákmanna stofnað

Hinn 12. september 1991 var haldinn í húsakynnum Skáksambands Íslands, stofnfundur Félags íslenskra bréfskákmanna. Helstu hvatamenn að stofnun félagsins voru Jón A. Pálsson, Þórhallur B. Ólafsson og Bjarni Magnússon. Um tveir tugir manna mættu á fundinn, sem fór í alla staði vel fram undir fundarstjórn Guðmundar G. Þórarinssonar, forseta S.Í. Stofnun félagsins var samþykkt samhljóða og voru stofnfélagar 19 talsins. Fyrsta stjórn félagsins var þannig skipuð: Þórhallur B. Ólafsson, formaður, Baldur Daníelsson, gjaldkeri, Jón A. Pálsson, Þorleifur Ingvarsson og Eggert Ísólfsson meðstjórnendur. Félagið varð aðili að S.Í. og Alþjóða bréfskáksambandinu (ICCF). Félagið gaf út fréttablaðið Bréfskákstíðindi um nokkurra ára skeið.

HEIÐRAÐUR SILFURMERKI AF ALÞJÓÐASAMBANDINU

thorhallur_b_olafssonÞórhallur hefur allar götur síðan verið formaður félagsins og jafnframt tekið virkan þátt í taflmennsku. Hann hefur t.d. staðið sig vel í fjölda landskeppna sem hann hefur átt þátt í að skipuleggja og verið einnig liðstjóri ofl. Árið 1985 var Þórhallur sem einnig hefur verið kallaður Doktor Bréfskák,  heiðraður silfurmerki ICCF (Alþjóðasambandsins í bréfskák) fyrir störf sín á alþjóðavísu fyrir Ísland. Doktorinn hefur svo sannarlega staðið fyrir sínu með að halda utan um bréfskák á Íslandi í tugi ára ásamt stofnfélaganum Jóni A Pálssyni sem hefur verið helsti umsjónarmaður bréfskákarinnar síðustu ár þar sem Þórhallur, sem nú er kominn á níræðisaldur, hefur verið að draga sig í hlé. Um þessar mundir er Daði Örn Jónsson umsjónarmaður bréfskákar á landinu og verður væntanlega kjörinn  formaður á Aðalfundi á nýju ári.

Þess skal og getið að það var annar læknir, Þorvaldur  Jónsson á Ísafirði sem talinn er vera upphafsmaður bréfskákar á Íslandi um aldamótin 1900.  Formleg bréfskákiðkun hófst þó ekki hér á landi fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld og nokkrir djarfhuga skákmenn hófu að taka þátt í erlendum mótum. Árið 1972 varð Bjarni Magnússon Norðurlandameistari í Bréfskák og fyrsta Íslandsmótið fór fram 1974-1976 en þar urðu efstir og jafnir Jón A Pálsson og Kristján Guðmundsson. Íslendingar tóku í fyrsta sinn þátt í heimsmeistarakeppni árið 1975 og hafa verið með síðan.

Bréfskákmenn á Íslandi þakka Þórhalli fyrir vel unnin störf og ómetanleg læknisstörf fyrir aðra íslendinga.

Lítum að endingu á eina skák með kappanum þar sem hann mætir argentínumanni á síðustu öld. Teflt er hvasst afbrigði í Sikileyjarvörn. Hvítur kemur frípeði upp á sjöundu röð og nær undirtökunum. Það sannaðist síðan að þegar doktorinn kemst í sókn þá finnst engin lækning…

ICCF EM-M-A018
1993

Hvítt: Þórhallur B Ólafsson Ísland
Svart: Nicolas White Argentína

1-0 þar sem aðstaða svarts er vonlaus.

Facebook athugasemdir