Haustmótið hafið

Hið sögufræga Haustmót Taflfélags Reykjavíkur hófst í gær, sunnudag.  Mótið er ávallt einn af föstum liðum í dagskrá skákmanna og skipar þar veglegan sess ásamt Skákþingi Reykjavíkur. Okkar fremstu skákmenn hafa um langt skeið bæði slitið barnsskónum og slípað sinn stíl á þessum mótum. Haustmótið heldur upp á 80. ára afmæli sitt í ár!

Það sem er frábrugðið á Haustmótinu er að þar er jafnan skipt í flokka eftir styrkleika og því reyna skákmenn sig við menn á svipuðu styrkleikastigi. Að þessu sinni eru lokuðu flokkarnir þrír: A, B og C auk þess sem D-flokkurinn er opinn flokkur.

Nokkuð mikið var um frestanir og yfirsetur í fyrstu umferð sem til eru komnar vegna Norðurlandamóts barnaskólasveita sem nú fer fram á Selfoss.

gylfi

Gylfi, sextugur á árinu!

Í A-flokki eru sterkustu keppendurnir og þar er stigahæstur FIDE Meistarinn Davíð Kjartansson (2331) sem nýverið vann öruggan sigur á Meistaramóti Hugins. Davíð er stigahæstur og verður að teljast sigurstranglegastur.

Næstur honum kemur FIDE Meistarinn Þorsteinn Þorsteinsson með 2242 elóstig. Þorsteinn er með traustari skákmönnum landsins og nánast fréttir ef hann tapar skák. Þorsteinn er að taka þátt í Haustmótinu í fyrsta skipti síðan 1979!

Gamlar kempur eru líka mættar til leiks. Gylfi Þórhallsson og Alþjóðlegi Meistarinn Sævar Bjarnason eru á meðal þeirra sem teflt hafa flestar reiknaðar skákir í íslenskri skáksögu.

Sævar mun ásamt Þorvarði Ólafssyni og Kjartani Maack berjast um titilinn skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur en þeir eru einu T.R. mennirnir í A-flokki.

Restin af keppendum eru Fjölnismenn. Hinn reyndi Jón Árni Halldórsson ásamt ungu og efnilegu þremenningunum Óliver Jóhannessyni, Degi Ragnarssyni og Jóni Trausta Harðarsyni.

Í fyrstu umferð var frestað hjá Davíð Kjartanssyni og Jóni Trausta og það kom á daginn að hinn ungi Óliver Aron var sá eini sem náði að veita andstæðingi sínum skráveifu.

Oliver_JonArni_1
Jón Árni var að bera biskup sinn fyrir skák biskupsins á b4. Hér kom skemmtilegur leikur hjá Óliver sem sýnir næmt auga fyrir taktískum lausnum.

26.Hd1!

Vel þjálfað auga Ólivers greinir veikleika svarta kóngsins í borðinu. Ef svartur drepur nú biskupinn með 26…Bxb4 kemur 27.Hd8+ Ke7 og 28.He8# laglegt mát!

26…f5

Svartur reynir að búa til flóttaleið fyrir kónginn.

27.Hd8+

Nýtir leppunina

27…Kf7 28.Be8+ Kf8 29.Bg6#

Oliver_JonArni_2

Vel gert hjá Óliver. Hann tekur forystuna í mótinu og líklega varhugavert að veðja mikið á móti honum enda á þeim aldrei þegar menn geta sprungið út og tekið stórt framfarastökk. Óliver er kominn með 2165 skákstig og einn af okkar efnilegustu skákmönnum.

Öðrum skákum lauk með jafntefli í mistilþrifalitlum skákum. Dagur og Kjartan tefldu mjög þétta skák og eins Þorsteinn og Gylfi. Það var helst gamla kempan Sævar Bjarnason sem lét Þorvarð Fannar hafa mikið fyrir sínu jafntefli.

B-flokkurinn hefur alþjóðlegt yfirbragð en tveir stigahæstu keppendurnir þar hafa erlent ríkisfang. Þeir Damia Morant Benet (Spánn) og Christoper Vogel (Þýskaland) eru hér staddir við nám og ákváðu að sinna einnig skákgyðjunni.

Damia slapp með skrekkinn þegar hann tefldi yfir 300 elóstigum niður fyrir sig gegn Gauta Páli Jónssyni. Gauti átti góð færi á yfirburðatafli en að lokum varð úr jafntefli í mislitu biskupaendatafli. Ólafur Kjartansson stóð ætíð betur gegn Þjóðverjanum en missti af einföldu færi snemma tafls til að nánast klára skákina. Þjóðverjinn sýndi seiglu og hafði baráttusigur.

Hinn ungi og efnilegi Björn Hólm Birkisson vann baráttusigur í sinni skák eftir að hafa staðið höllum fæti. Hvítur var hér að drepa eitrað peð á c6 með biskup. Björn greip tækifærið!

JonThor_BjornHolm42…Hxc6+! 43.Hxc6 gxf3

Á daginn kemur að tvípeðið er gott því hitt f-peðið skýlir hinu nýja frípeði fullkomlega. Svartur nær nýrri drottningu. Framhaldið varð…

44.Hxa6 f2 45.Hxa5+ Kg4 46.Kb3 f1=D og hvítur gafst upp skömmu síðar.

 

Bárður Örn Birkisson er stigahæstur í C flokknum og ætlar sér eflaust ekkert nema sigur. Fleiri ungir og efnilegir skákmenn sem gaman verður að fylgjast með eru í þessum flokk. Þar má nefna Guðmund Agnar Bragason, Felix Steinþórsson og skákprinsessuna Nansý Davíðsdóttur. Meðal annarra í þessum flokki má nefna félagana úr Vinaskákfélaginu Hörð Jónasson og Hjálmar Sigurvaldason sem láta sig sjaldan vanta á mót í Feninu.

Tuttugu og átta keppendur eru í opna flokknum. Þar má finna fjölmarga krakka sem eru að taka þátt í fyrsta, eða einu af fyrstu kappskákmótum sínum. Þar á meðal eru margir sem tóku þátt í fyrsta móti Bikarsyrpu Taflfélagsins um seinustu helgi og demba sér nú út í djúpu laugina með því að taka þátt í Haustmótinu. Það verður gaman að fylgjast með hvernig þeim reiðir af í baráttunni við nokkrar eldri og reynslumeiri kempur, t.a.m Björgvin Kristbergsson og Olaf Evert Ulfsson sem er nú að tefla eftir langt hlé.

Úrslit í öllum flokkum má nálgast hér.

Hægt er að nálgast skákir fyrstu umferðar í flokkum A-C hér.

Önnur umferð Haustmótsins fer fram á miðvikudagskvöldið í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur í Faxafeni 12 og hefst kl. 19.30. Allir skákáhugamenn velkomnir að líta við, heitt á könnunni og bakkelsi hjá Birnukaffi!

Facebook athugasemdir