Hátíð á Ströndum frestað

Skákhátíð á Ströndum 2015 sem fram átti að fara 26. til 28. júní hefur verið frestað af óviðráðanlegum ástæðum. Mikil forföll og veikindi hafa herjað á keppendur, og telur Hrókurinn því rétt að fresta hátíðinni. Minningarmót Böðvars Böðvarssonar, sem fram átti að fara 27. júní, verður auglýst síðar.

Liðsmönnum Hróksins þykir leitt að þurfa að hætta við skákhátíðina núna. Hróksmenn hafa haldið margar hátíðir í Árneshreppi, og héldu fyrstu  mótin og fjölteflin uppúr aldamótum. Margir af bestu skákmönnum landsins, sem og áhugamenn af öllum stigum, hafa teflt í einstöku andrúmslofti á Ströndum, og það er von Hróksmanna að innar tíðar verði enn teflt í landsins fegurstu sveit.

Í mörg horn er annars að líta hjá liðsmönnum Hróksins. Á næstu vikum fara nokkrar stórar fatasendingar til Grænlands, en fatasöfnunin hófst í haust og hefur gengið framúrskarandi vel. Búið er að senda mörghundruð kassa af vönduðum skóm og fötum, sem einkum hafa farið til fátækustu þorpa austurstrandarinnar.

Hróksmenn hafa þrisvar heimsótt Grænland á árinu 2015 og haldið hátíðir í fjórum bæjum. Næstu 12 mánuði eru 5-6 ferðir á teikniborðinu.

Þá halda Hróksmenn áfram heimsóknum í Vin og Barnaspítala Hringsins, en það góða starf hófst sumarið 2003. Ýmis mót og viðburðir eru á dagskránni í sumar, og verður það nánar auglýst hér og á heimasíðu Hróksins.

Facebook athugasemdir