Háspenna í Tromsö: Frakkar ná Kínverjum, Ísland heldur sjó, Palestínumaður með bestan árangur einstaklinga

Vassily Ivanchuk from Ukraine vs Yue Wang from China

Hux. Ivanchuk og Wang mættust á 1. borði þegar Úkraína gerði áhlaup á Kína. Niðurstaðan var jafntefli á öllum borðum.

Jafnteflisdraugurinn gekk ljósum logum um 69. breiddargráðu þegar 9. umferð Ólympíuskákmótsins í Tromsö fór fram á mánudag. Spútniklið Kínverja mætti sveit Úkraínu sem er komin á flug eftir brösótta byrjun.  Jafntefli var niðurstaðan í öllum skákunum fjórum, og viðureignin fór því 2-2. Kínverjar halda efsta sæti, með 15 stig af 18 mögulegum, en þeir hafa fengið félagsskap á toppnum: Frakkar unnu Tékka, og eru komnir upp að hlið Kínverja. Þjóðirnar mætast á morgun.

Í næstu sætum með 14 stig koma Úkraína, Azerbæjan, Búlgaría, Ungverjaland og Rúmenía. Ólympíumeistarar Armena hafa 13 stig, líkt og Bandaríkin, Rússland, Indland og Holland. Tvær umferðir eru eftir af mótinu og spennast nálgast hástig í Tromsö.

R9_Magnus_Carlsen_Dragan_Solak_norway_turkey_002

Carlsen. Stendur undir væntingum Norðmanna.

Heimsmeistarinn Carlsen vann sigur á hinum serbnesk-ættaða Dragan Solak (2632) þegar Norðmenn og Tyrkir gerðu 2-2 jafntefli.

Viðureign Kínverja og Úkraínu var spennuþrungin. Á 1. borði mættust Wang (2742) og Ivanchuk (2744). Hinn mikli Ivanchuk var lengi að finna fjölina sína í Tromsö: Hann steinlá í fyrstu skák sinni á mótinu, gegn alþjóðameistaranum Urkedal (2500) sem teflir með B-liði Noregs, gerði svo jafntefli við tvo mun stigalægri stórmeistara, og tapaði loks aftur fyrir kempunni Kasimdzhanov (2700). Aðdáendur hins margbrotna meistara óttuðust hið versta, en Ivanchuk hefur síðan rétt úr kútnum. Hann lenti í lítilsháttar basli gegn Wang, en jafntefli var niðurstaðan.

Eins og í hinum skákunum þremur. Þar mættust Ding (2742) og Ponomariov (2717), Yu (2668) og Eljanov (2723), og Wei (2638) og Moissenko (2707).

Olympiad round 9 340 (1)

Röndóttir Kínverjar halda áfram að fara á kostum.

Sérstaka athygli vekur að Kínverjar voru hvergi smeykir við að tefla hinum 15 ára gamla Wei fram á 4. borði, þar sem hann mætti stjörnu úkraínska liðsins, Moiseenko, sem var með 5,5 vinning af 6. Moiseenko, sem nú er 34 ára, varð Evrópumeistari í fyrra og var í úkraínska liðinu sem vann gullverðlaun á 36. Ólympíuskákmótinu 2004.

Wei hefur farið á kostum í Tromsö og er taplaus með 4 vinninga af 5. Úkraínski ofurmeistarinn, sem hafði hvítt gegn Wei, reyndi sannarlega að vinna unga kínverska snillinginn, sem hratt öllum atlögum af vísindalegri nákvæmni og tryggði sér jafntefli með þráskák eftir að hafa fórnað hróki.

Íslendingar bera sérstakar taugar til hins unga kínverska skáksnillings, sem tryggði sér lokaáfanga að stórmeistaratitli á N1 Reykjavíkurskákmótinu í fyrra, þegar hann var 13 ára, 8 mánaða og 23 daga gamall.

Olympiad round 9 368

Navara og félagar frá Tékklandi töpuðu fyrir Frökkum.

Frakkar smelltu sér upp að hlið Kínverja með sigri á Tékkum. Etienne Bacrot (2720) var hetja franska liðsins, lagði Laznicka (2676) á 2. borði, en öðrum skákum lauk með jafntefli. Þetta var þriðji sigur Bacrot í röð, sem nú er með 6 vinninga af 8 mögulegum og árangur upp á 2790 stig. Bacrot, sem nú er 31 árs, setti met þegar hann varð stórmeistari aðeins 13 ára. Hann er nú næstbesti skákmaður Frakka, á eftir hinum unga og vaska Vachier-Lagrave (2768) sem gerði jafntefli við Íslandsvininn Navara (2716) í viðureign Frakka og Tékka.

Norðmenn geta endanlega sagt skilið við dagdrauma um verðlaun á mótinu. Carlsen skilaði sínu og sigraði Solak á 1. borði. Heimsmeistarinn virtist vera með afleita stöðu um tíma, en náði (eins og venjulega) að snúa á andstæðing sinn í miðtaflinu.

Simen Agdestein from Norway

Agdestein. Afreksmaður í fótbolta og skák, en hefur ekki ennþá reimað á sig skotskóna í Tromsö.

Agdestein (2630) tapaði illa fyrir Can (2529) á 2. borði, en öðrum skákum lauk með jafntefli. Agdestein, sem nú er 47 ára, var um árabil fremsti skákmaður Noregs og auk þess landsliðsmaður í fótbolta. Hann hefur sex sinnum orðið Noregsmeistari og er fv. þjálfari Carlsens. Gamli sóknarmaðurinn hefur ekki fundið taktinn í Tromsö og er með 50% vinningshlutfall úr 8 skákum.

Stórsveit Azera gerði jafntefli á öllum borðum við Rúmeníu. Sama var uppi á teningnum í viðureign Hvíta-Rússlands og Hollands. Sveit Hvítrússa leiða bræðurnir Sergei og Andrei Zhigalko. Sá fyrrnefndi er yngri, fæddur 1989. Hann varð Evrópumeistari 14 ára og yngri 2003 og Evrópumeistari 18 ára og yngri 2006. Hann atti kappi við hollenska (eða öllu heldur fjölþjóðlega) snillinginn Giri sem hefur staðið vaktina með sóma á efsta borði hollenska liðsins, og er taplaus með 6,5 vinning af 9 mögulegum og árangur upp á 2824 skákstig.

R9_veselin_topalov_044

Topalov lætur sig ugglaust enn dreyma um heimsmeistaratitilinn. Búlgarar hafa staðið sig vel í Noregi.

Ungverjar hafa ekki sagt sitt síðasta orð og unnu Ísrael 3-1, og Búlgarar unnu mjög mikilvægan sigur á Kúbverjum. Þar mættust jöfrarnir Topalov (2772) og Dominguez (2760). Búlgarski refurinn vann góðan sigur og hefur nú fengið 5 vinninga í 7 skákum, og jafngildir árangur hans 2864 stigum. Búlgararar töpuðu á 4. borði en það var hinn ótrúlegi Iotov (2553) sem tryggði sigur gegn Tékkum með vinningi gegn Quesada Perez (2649). Itov hefur nú fengið 7,5 vinning í 9 skákum, og Búlgaría er komin í 5. sætið.

Tími Indverja er ekki enn runninn upp á ólympíuskákmóti, enda situr sjálfur Anand heima og býr sig undir heimsmeistaraeinvígi við Carlsen í nóvember. Í dag gerðu Indverjar jafntefli (á öllum borðum!) við Argentínu. Sömu úrslit urðu í viðureign Bandaríkjanna og Þýskalands, en þar var þó öllu meiri dramatík og enn og aftur sat aumingja Kamsky uppi með svartapétur.

[slideshow_deploy id=’1342′]

(Myndir Chess24.com)

Kamsky og Nakamura

Stórstjörnur bandaríska liðsins, Kamsky og Nakamura. Kamsky hefur staðið sig hörmulega á mótinu og Nakamura ekki sýnt neitt sérstakt.

Kamsky er nú orðinn fertugur en var einu sinni heimsfrægt undrabarn. Hann er fæddur og uppalinn í Rússlandi, af Tataraættum, en fluttist til Bandaríkjanna og er næstbesti skákmaður landsins á eftir Nakamura. Kamsky náði á sínum tíma 4. sæti stigalistans og margir spáðu honum heimsmeistaratign. Hann dró sig hinsvegar í hlé frá skák í nokkur ár, úrskrifaðist sem lögfræðingur og stundaði læknisnám um hríð. Hann sneri aftur að taflborðinu og komst í hóp þeirra bestu.

En ekki í Tromsö. Kamsky er helsti dragbítur bandaríska liðsins og hefur ekki unnið skák síðan í 1. umferð, þegar hann lagði liðsmann Úganda. Hann hefur tapað 25 dýrmætum skákstigum í Noregi og hrapað niður heimslistann.

Ólympíumeistarar Armeníu munu ekki verja titil sinn. Í 9. umferð gerðu þeir jafntefli (á öllum borðum!) við knáa sveit Serba. Armenar sitja nú í 13. sæti, og tefla í næstsíðustu umferð við Víetnam.

Olympiad round 9 397

Karjakin. Úkraína á enn möguleika á gullverðlaunum.

Og þá er það annað stórveldi, sem hefur valdið vonbrigðum í Noregi: Rússar mörðu B-sveit Noregs(!) með 2,5 vinningi gegn 1,5. Kramnik var settur á bekkinn — aftur — og Grischuk náði eina vinningi rússnesku ofurmeistaranna á 1. borði, en Svidler, Karjakin og Nepomniachtchi gerðu allir jafntefli við alþjóðlega meistara sem eru mun neðar í fæðukeðjunni. Sérstaka athygli vekur jafntefli Nepomniachtchi (2714) og Tari (2440) á 4. borði. Norðmaðurinn er aðeins 15 ára, af írönskum ættum og þykir afar efnilegur. Norska B-sveitin hefur á köflum stolið senunni frá Carlsen og köppum hans, ekki síst með frækilegu jafntefli við Úkraínu. Framtíðin er björt í norsku skáklífi, svo mikið er víst.

Jafnteflisdraugurinn kom við þar sem Íslendingar sátu að tafli gegn ágætri sveit Katar, svo þar varð skiptur hlutur niðurstaðan á öllum borðum. Fyrir Ísland tefldu Hannes Hlífar Stefánsson, Hjörvar Steinn Grétarsson, Þröstur Þórhallsson og Helgi Ólafsson, en Guðmundur Kjartansson hvíldi.

throsturÍslenska liðið hefur staðið sig með prýði, og ekki tapað í 5 síðustu umferðum. Hannes Hlífar hefur náð bestum árangri íslensku landsliðsmannanna, 5 vinningum af 7, og jafngildir árangur hans 2639 stigum. Hjörvar Steinn hefur 6 vinninga af 8, Guðmundur 3 af 6, Þröstur 5 af 7 og Helgi 5,5 af 8.

Í kvennaflokki héldu rússnesku stúlkurnar áfram sigurgöngu sinni — með naumindum. Armenía veitti harða mótspyrnu og nýja ,,rússneska“ stjarna Lagno (2540) tapaði fyrir valkyrjunni Danielian (2490). Lagno, sem var undrabarn í skák og ein fremsta skákkona heims, skipti nýverið um ríkisfang — frá Úkraínu til Rússlands. Svo sannarlega viðkvæmt mál, eins og lesendur geta ímyndað sér…

Og það verða einmitt Úkraína og Rússland sem berjast í 10. umferð!

Anna Muzychuk

Anna Muzychuk leiðir sveit Úkraínu, eftir að Katarina Lagno gekk til liðs við Rússa! Þær mætast í 10. umferð. Það verður rafmagnað!

Forvitnilegt verður að sjá hvort Katarina Lagno verður í rússneska liðinu. Þá mætir hún væntanlega fyrrum samlöndu sinni, Önnu Muzychuk (2555) sem er sýnd veiði, en hreint ekki gefin. Þær hafa teflt 10 skákir til þessa án þess að Lagno hafi unnið eina einustu.

Kínversku stúlkurnar gjörsigruðu Frakka með 3,5 vinningi gegn 0,5. En trúlega skiptir það litlu: Rússnesku stúlkurnar eru líklegar til að klára mótið með fullu húsið.

Íslenska kvennaliðið sigraði skáksveit blindra 4-0 og er nú í 55. sæti af rúmlega 130 sveitum.

Nú eru aðeins tvær umferðir eftir í Tromsö. Flestra augu beinast auðvitað að meisturunum miklu, en ólympíuskákmótið er líka einskonar uppskeruhátíð skákmanna hvaðanæva að úr heiminum.

Í umferðunum 11 í Tromsö eru samtals háðir hátt í 1000 landsleikir. Í 9. umferðinni valtaði Malta yfir Afganistan 4-0, og Kamerún vann Haiti með sömu markatölu. Nepal vann Kúvæt, og Fílabeinsströndin jarðaði Sádi-Arabíu…

(Mynd IÞJ)

Hallgerður Helga. Íslenska kvennaliðið sigraði 4-0 í 9. umferð. (Mynd IÞJ)

Og Palestína vann Andorra með minnsta mun. Þar var það stórvinur okkar Christian D. Michel Yunis sem tryggði sigurinn — enn einu sinni.

Palestínski alþjóðameistarinn er nefnilega sá skákmaður á 41. Ólympíuskákmótinu, sem bestum árangri hefur náð. Hann hefur teflt 7 skákir og unnið allar og árangur hans jafngildir 2886 skákstigum.

Þessi óþekkti alþjóðameistari skákar þannig öllum í Tromsö, í næstu sætum eru Svetushkin (2884), Shankland (2877), Carlsen (2868), Yu (2867) og Topalov (2772). Ekki amalegur félagsskapur!

Á þriðjudag verður næstsíðasta umferðin. Þá mætast Kínverjar og Frakkar, með Wang og Vachier-Lagrave á 1. borði.

Það verður líka stórveldaslagur þegar Úkraína með Ivanchuk í broddi fylkingar mætir Azerum.

Ungverjar keppa við Rúmena, og Búlgarar við Pólland.

Þetta gæti næstum því verið sveitakeppni Varsjárbandalagsins — ef ekki væru þeir félagar Wang, Ding, Yu, Ni og Wei…

Staðan á Ólympíuskákmótinu

Þessi lið mætast í 10. umferð

Árangur íslenska liðsins í opnum flokki

Árangur íslenska liðsins í kvennaflokki

[slideshow_deploy id=’1376′]

Facebook athugasemdir