Háspenna á Íslandsmótinu: Naum forysta Hugsins — sveitir TR efstar í 2., 3. og 4. deild!

IMG_4629Skákfélagið Huginn er í efsta sæti 1. deildar Íslandsmóts skákfélaga eftir fimm umferðir af níu. Huginn lagði Taflfélag Reykjavíkur í 5. umferð, 5-3, og hefur nú hálfs vinnings forskot á TR. Harðsnúið lið Eyjamanna er skammt undan, eftir stórsigur á Fjölni.  Baráttan í síðustu umferðunum, sem fram fara í mars, verður æsispennandi!

Viðureign Hugins og TR var vægast sagt magnþrungin. Huginn tefldi fram Ivan Cheparinov (2681) á 1. borði gegn TR-ingnum Mikhailo Oleksienko (2618) en þeir eru stigahæstu keppendurnir á Íslandsmótinu. Jafntefli varð niðurstaðan eftir tvísýna viðureign.

IMG_4630Á 2. borði gerðu TR-ingurinn Hannes H. Stefánsson (2549) og kanadíski stórmeistarinn og Huginsmaðurinn Eric Hansen (2574) bragðdauft jafntefli, en úrslitin réðust á borðum 3 til 5. Huginsmennirnir og stórmeistararnir Hjörvar Steinn Grétarsson (2548), Stefán Kristjánsson (2490) og Þröstur Þórhallsson (2430) sigruðu TR-ingana Jakob Vang Glud (2544), Guðmund Kjartansson (2439) og Arnar Gunnarsson (2435).

Kempan Margeir Pétursson (2532) klóraði í bakkann með sigri gegn stjörnu Evrópumóts félagsliða, Einari Hjalta Jenssyni (2391), en öðrum skákum lauk með jafntefli. Niðurstaðan því 5-3 sigur og Huginn hafði sætaskipti við TR á toppnum — en munurinn gæti ekki verið minni!

IMG_4641Eyjamenn minntu rækilega á sig með stórsigrinum gegn Fjölni. Þeir voru stigahærri á öllum borðum og voru svo sannarlega á skotskónum. Fimm Eyjamenn sigruðu í sínum skákum í viðureigninni: Helgi Ólafsson (2543), franski stórmeistarinn Matthieu Cornette (2548), Henrik Danielsen (2490), Sigurbjörn Björnsson (2320) og Þorsteinn Þorsteinsson (2242).

Hinum skákunum þremur lauk með jafntefli:  Björn Ívar Karlsson (2268) stöðvaði sigurgöngu hins efnilega Fjölnismanns, Dags Ragnarssonar (2154) sem hafði sigrað í öllum 4 skákum sínum á Íslandsmótinu, Héðinn Steingímsson (2530) 1. borðsmaður Fjölnis gerði jafntefli við Nils Grandelius (2569) og sömu úrslit urðu hjá Oliver Aron Jóhannessyni (2192)  og Eyjamanninum Ingvari Þór Jóhannessyni (2371) sem ekki þarf að kynna fyrir dyggum lesendum þessarar fréttasíðu.

TR-ingar geta verið ánægðir með uppskeru helgarinnar: A-liðið er hársbreidd frá efsta sæti í 1. deild, B-lið TR er efst í 2. deild, C-liðið í 3. deild og D-liðið í 4. deild!

Hér er hægt að skoða einstök úrslit og stöðu í öllum deildum Íslandsmótsins:

IMG_4632

IMG_4633

IMG_4636

IMG_4637

IMG_4644

IMG_4645

IMG_4647

IMG_4639

Facebook athugasemdir