Hart barist á heimsmeistaramóti ungmenna: Tekst undradrengnum Wei Yi að landa titlinum?

Wei Yi tekur við staðfestingu á stórmeistaratitlinum í Reykjavík 2013 úr hendi Gunnars Björnssonar forseta SÍ. Veðbanki Hróksins spáir honum heimsmeistaratitli á Indlandi.

Wei Yi tekur við staðfestingu á stórmeistaratitlinum í Reykjavík 2013 úr hendi Gunnars Björnssonar forseta SÍ. Veðbanki Hróksins spáir honum heimsmeistaratitli á Indlandi.

Nú þegar jafntefliskóngarnir hafa slíðrað sín sverð í Baku og búið er að útdeila dollurunum í Las Vegas beinist athygli skákheimsins að Pune, sjöundu stærstu borg Indlands. Þar er heimsmeistaramót ungmenna 20 ára og yngri að ná hámarki.

Eftir 8 umferðir af 13 eiga að minnsta kosti átta ungir meistarar möguleika á heimsmeistaratitlinum. Í þeim hópi eru þrír Kínverjar og tveir Rússar, auk keppenda frá Armeníu, Perú og Indlandi.

Þrír eru efstir og jafnir með 6,5 vinning af 8 mögulegum: Kínverjarnir Wei Yi (2641) og Lu Shanglei (2533) og Armeninn Karen H. Grigoryan (2591).

Á hæla þeirra, með 6 vinninga, koma Jorge Cori (2612) frá Perú, Diptayan Ghosh (2508) frá Indlandi, Rússarnir Mikail Antipov (2524) og Vladimir Fedoseev (2661) og Kínverjinn Bai Jinsi (2406).

Í opnum flokki eru 137 keppendur frá 46 löndum — og þar af eru 74 Indverjar!

Aryan Tari (2450)

Aryan Tari (2450) er efstur Norðurlandabúar. Foreldrar hans fluttu frá Íran til Noregs.

Á árum áður var sigur á mótinu ekki síst eftirsóknarverður, þar sem heimsmeistaratitlinum fylgdi sjálfkrafa stórmeistaratign. Helgi Áss Grétarsson varð þannig stórmeistari með frægum sigri á þessu móti fyrir réttum 20 árum.

Nú er öldin önnur. 18 keppendur eru þegar orðnir stórmeistar og 22 eru alþjóðlegir meistarar.

Íslendingar eiga því miður ekki fulltrúa á mótinu að þessu sinni, en efstur Norðurlandabúa, með 5,5 vinning, er Aryan Tari (2450) sem er íranskur að ætt.

Athygli vekur að hollensku ungstirnin Robin van Kampen (2641) og Benjamin Bok (2591), sem eru meðal stigahæstu manna mótsins hafa báðir 5 vinninga, og eru því 1,5 vinningi frá efstu mönnum.

Aleksandra Goryachkina

Aleksandra Goryachkina frá Rússlandi. Efst ásamt tveimur öðrum í stúlknaflokki.

Í stúlknaflokki hefur heldur engum tekist að stinga af. Þar eru Aleksandra Goryachkina (2430) frá Rússlandi, Ann Chumpitaz (2201) frá Perú og Anna Iwanow (2279) frá Póllandi efstar með 6,5 vinning af 8 mögulegum.

Gaman verður að fylgjast með næstu umferðum í báðum flokkum. Í 9. umferð verður kínverskt einvígi þegar Wei Yi og Lu Shanglei mætast, en hinn sókndjarfi Grigoryan glímir við Rússann Fedoseev, sem er stigahæstur allra.

Veðbanki Hróksins hallast að sigri hins ótrúlega Wei Yi, sem varð stórmeistari á Íslandi í fyrra, aðeins 13 ára gamall. Hann var í sigurliði Kínverja á Ólympíumótinu í Noregi í ágúst, þar sem hann fór á kostum.

Við munum fylgjast vel með síðustu umferðunum á Indlandi!

Facebook athugasemdir