Hann heitir Murali og er 15 ára undrastrákur frá Indlandi

abudhabi2014-24-karthikeyan

Murali. 15 ára og tefldi eins og ofurstórmeistari!

Hann er 15 ára strákur frá Indlandi. Í ágúst tefldi hann á mjög sterku opnu móti í Abu Dhabi. Hann vann fjóra stórmeistara í röð og var efstur eftir 7 umferðir af 9. Við segjum ykkur frá indverska undrastráknum Murali.

Hann heitir fullu nafni Murali Karthikeyan og fæddist 1. maí 1999. Hann er frá borginni Chennai á Indlandi, en þar fór heimsmeistaraeinvígi Anands og Carlsens fram á síðasta ári.

Anand var heimsmeistarinn. Hann er 44 ára og var fyrsti Indverjinn sem varð stórmeistari í skák. Hann er einn besti skákmaður allra tíma.

Það er gaman að segja frá því, að skákin var fundin upp á Indlandi. Hvað er langt síðan? Kannski svona eitt þúsund og fimm hundruð ár. Fólk var byrjað að tefla löngu áður en Ísland fannst.

Anand er þjóðhetja á Indlandi.  Strákar og stelpur á Indlandi líta á Anand sem fyrirmynd.

Skák er mjög vinsæl á Indlandi. Veistu hvað það búa margir á Indlandi? Svar: 1.210.000.000. Meira en tólf hundruð milljónir! (Veistu hvað það búa margir á Íslandi?)

23slide12

Anand. Þjóðhetja á Indlandi.

Og Murali sló heldur betur í gegn á skákmótinu í Abu Dhabi. Hann varð í 3. sæti af 89 keppendum. Árangur hans jafngilti 2709 skákstigum. Það er ótrúlegur árangur hjá 15 ára strák.

Murali er orðinn alþjóðlegur meistari í skák og hefur 2462 skákstig. (Við ætlum bráðum að útskýra hvað skákstig eru, hér í Krakkafréttum!)

Murali varð heimsmeistari 12 ára og yngri í desember 2011!

1magnuscarlsen

Magnus Carlsen heimsmeistari. Kannski nær Murali að skáka honum!

Hann ferðaðist alla leið frá Indlandi til Brasilíu til að keppa á heimsmeistaramótinu. Skoðaðu leiðina á landakorti!

Murali er mjög efnilegur. Hann leggur hart að sér við skákina, og hann er líka í skóla.

Einn góðan veðurdag á Murali eftir að tefla við Magnus Carlsen heimsmeistara.

Og kannski nær Murali að færa Indlandi aftur heimsmeistaratitilinn.

Eitt er víst: Við ættum að muna þetta nafn!

Facebook athugasemdir